El Enemigo Cabernet Franc 2018

Vínin frá El Enemigo eru ein áhugaverðasta nýjungin á íslenskum vínmarkaði þetta árið. Ég smakkaði nokkur vín frá þeim á árinu – Chardonnay, Malbec og Bonarda – en átti alveg eftir að skrifa um Cabernet Franc sem ég smakkaði um svipað leiti. Cabernet Franc sjáum við ekki svo oft sem einnar þrúgu vín. Það er einna helst að slík vín sé að finna í Loire-dalnum í Frakklandi, en annars er hún að mestu notuð til íblöndunar, m.a. í Bordeaux.

El Enemigo Cabernet Franc 2018 er reyndar ekki alveg 100% Cabernet Franc, því það inniheldur líka örlítið Malbec . Að lokinni gerjun er vínið geymt í 15 mánuði í 100 ára gömlum foudre, sem eru stórar eikarámur (allt að 1000 lítrar að rúmmáli). Vínið hefur djúpan rúbínrauðan lit og þétta angan af plómum, brómberjum, svörtum kirsuberjum, anís, bláberjum, svörtum pipar, timjan, súkkulaði og smá reyk. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, miðlungs tannín og góða fyllingu. Gott eftirbragð þar sem plómur, bómber, anís, kakó og timjan koma vel fram. 92 stig. Frábær kaup (3.990 kr – ath. fæst aðeins í vefverslun finvin.is). Njótið með léttum kjötréttum, t.d. lambi og svínakjöti, eða með ostum.

Wine Spectator gefur þessu víni 90 stig. Þorri Hringsson í Víngarðunum gefur því 4,5 stjörnur. Tim Atkin gefur því 93 stig og James Suckling gefur einnig 93 stig. Notendur Vivino gefa því 4,3 stjörnur (8.466 umsagnir þegar þetta er skrifað)

El Enemigo Cabernet Franc 2018
Frábær kaup
El Enemigo Cabernet Franc 2018 fer vel með léttum kjötréttum, t.d. lambi og svínakjöti, eða með ostum.
4.5
93 stig

Vinir á Facebook