Þá er 26. starfsár Vínsíðunnar senn á enda og samkvæmt hefð ætla ég að renna yfir árið og tilkynna um val mitt á víni ársins. Þetta ár var að mörgu leiti frábrugðið fyrri starfsárum. Ég settist á skólabekk og skráði mig í WSET-3 námið í West London Wine School. Það var mjög áhugavert og fróðlegt og leiddi m.a. til þess að víndómarnir mínir fóru að fá aðeins staðlaðra form (þó að breytingarnar séu ekki áberandi). Í vor fór ég í góða yfirferð yfir helstu rósavínin sem okkur standa til boða. Ég naut góðs stuðnings helstu vínbirgja landsins í WSET-náminu og í rósavínssmakkinu og eru þeim nú færðar hinar bestu þakkir fyrir aðstoðina.
Vínklúbburinn minn skellti sér í vorferð til Champagne sem var gríðarlega áhugaverð og skemmtileg. Ég hef svei mér ekki tölu á öllum kampavínunum sem við smökkuðum í þessari – þau eru sennilega öðru hvoru megin við 30.
Um mitt sumar misstum við Perlu, fjölskylduhundinn okkar, nokkuð óvænt og ég skrifaði ekki mikið eftir það en við fengum svo nýjan Labrador-hvolp rétt fyrir jólin og skrifgleðin er nú komin aftur. Vonandi birtist það í fjölmörgum nýjum víndómum á nýju ári! Ég er aftur sestur á skólabekk og er nú að taka French Wine Scholar hjá Wine Scholar Guild, þar sem ég ætla að kafa ítarlega ofan í frönsk vín og franska víngerð. Mig dauðlangar líka að taka Champagne Master – hver veit nema ég skelli mér líka í það?
Árið 2023 í hnotskurn
Annars varð útkoman á Vínsíðunni þannig að það birtust 84 umsagnir á árinu 2023 – 14 hvítvín, 43 rauðvín, 3 freyðivín og 24 rósavín. Vivino segir mér að ég hafi smakkað vel yfir 200 mismunandi vín á árinu þannig að ég get greinilega skrifað mun meira en ég gerði. Þó ber að hafa í huga að ég þurfti að smakka rúmlega 60 vín í WSET-náminu, ég smakkaði hátt í 30 rósavín í vor og svo 30+ kampavín þegar ég fór til Champagne…
Ég var nokkuð örlátur á stjörnurnar í ár – alls fengu 18 vín 5 stjörnur, sem er líklega met hjá mér. Það var nokkuð spænsk slagsíða á rauðvínunum þetta árið, líkt og í fyrra, og kominn tími til að horfa aftur meira til annarra landa í umfjöllun hér á Vínsíðunni. Heimsóknirnar urðu rúmlega 12.200 þetta árið. Mest lesnu greinarnar eru, líkt og í fyrra, hvernig á að elda svínarif (frá árinu 2014), bestu kassavínín í vínbúðunum (sem er frá 2015) og um skemmd vín (frá 2019). Af greinum þessa árs vildu flestir lesa um rósavín og um Georgíska víngerð.
Vín ársins 2023
Það var í raun úr nokkuð mörgum vínum að velja þegar kom að því að velja vín ársins. Öll vínin sem fengu 5 stjörnur og sum þeirra sem fengu 4,5 stjörnur komu til álita. Við valið reyni ég auðvitað að horfa á verð og gæði, en svo þarf líka að vera eitthvað spennandi við vínið. Vínbúðum á netinu fjölgar stöðugt og greinilega kominn tími til nánari yfirferðar hvað þetta varðar. Það segir kannski margt um þessar nýju vínbúðir að vín ársins á Vínsíðunni árið 2023 fæst ekki (ennþá) í Vínbúðum ÁTVR, en vonandi rætist úr því á nýju ári.
Vín ársins kemur frá Argentínu, nánar til tekið frá Gualtallary í Uco-dalnum í Mendoza, Argentínu. Vínekrurnar í Gualtallary eru í nærri 1600 metra hæð yfir sjávarmáli. Hér eru mjög hagstæð vaxtarskilyrði fyrir þrúgur á borð við Chardonnay. Vín ársins 2023 á Vínsíðunni er El Enemigo Chardonnay 2019.
El Enemigo Chardonnay 2019 er fölgult á lit, með rjómakennda angan af eplum, sítrónum, perum, huangi, ananas og steinefnum. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og miðlungs fyllingu. Eftirbragðið er langt, með seiðandi tóna af eplum, steinefnum, ananas, perum og hunangi. 94 stig. Frábær kaup (3.990 kr – fæst aðeins í netversluninni finvin.is). Njótið með skelfiski, sjávarfangi hvers konar, laxi, bleikju eða ljósu fuglakjöti.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnu (3623 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 93 stig. Wine Spectator og Wine Enthusiast gefa 90 stig hvor um sig. Tim Atkin gefur 93 stig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur því 5 stjörnur.
Ég þakka öllum lesendum Vínsíðunnar samfylgdar á árinu 2023. Gangið hægt um gleðinnar dyr og munið að gæðin skipta meira máli en magnið þegar vín eru annars vegar.