Áramótatiltekt

Síðasti dagur ársins er runninn upp og ég á enn eftir að koma frá mér nokkrum víndómum. Ég vona að lesendur fyrirgefi mér fyrir að hafa þessar umsagnir í styttri kantinum og án lengri inngangs sem ég hef alltaf reynt að láta fylgja. Inngangurinn að hverju víni er jú besta leiðin til að lauma inn nokkrum fræðslumolum og áhugaverðum upplýsingum á bak við vínin. Það tekur dálítinn tíma að skrifa hverja slíka færslu, heimildaöflun o.s.frv., og ég ætla að sleppa því fyrir þessi vín til að koma þeim öllum frá mér fyrir áramótin. Síðasta færsla ársins verður svo auðvitað uppgjör ársins og val á Víni ársins 2023 á Vínsíðunni.

Louis Latour Meursault-Blagny Premier Cru Château de Blagny 2017 var á meðal bestu vínanna sem ég smakkaði í ár.  Vínið hefur fallegan fölgullin lit og smjörkenndan ilm af eplum, perum, möndlum, vanillu, eik, suðrænum ávöxtum og smá heslihnetur. Vínið er þurrt, með ríflega miðlungs sýru og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og þokkafullt. Frábært vín – 95 stig, 5 stjörnur. Frábært hvítt Búrgúndarvín, en eins og oftast um þau vín þá taka þau vel í budduna. Vínið kostar 12.499 og þarf að sérpanta.

Tommasi Ca’ Florian Amarone della Valpolicella Classico Riserva 2012 er eitt besta Amarone-vínið sem fást í Vínbúðunum. Þrúgurnar – Corvina (75%), Corvinone (20%) og Rondinella (5%) – koma af Ca’ Florian-vínekru Tommasi. Vínið hefur djúpar múrsteinsrauðan lit og nokkuð þroskaðan ilm af sveskjum, leðri, kakó, vanillu, sólberjum, plómum, negul, múskat og eik. Vínið er þurrt, með góða sýru, þroskuð tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og mjúkt, með sveskjur, kakó, vanillu, plómur, negul, vanillu, eik og smá myntu í lokin. 93 stig – 4 1/2 stjarna. Athugið að í vínbúðunum er nú 2015-árgangur sem sennilega enn betri en þessi, miðað við umsagnir annarra vínskríbenta.

Tenuta Il Poggione Brunello di Montalcino 2010 vakti mikla hrifningu þegar það kom á markað, og það lenti í 4. sæti á topp 100-lista Wine Spectator árið 2015. Óli vinur minn fékk þetta í afmælisgjöf þegar hann varð fimmtugur (fyrir nokkrum árum) og ég var svo heppinn að vera viðstaddur þegar flaskan var opnuð. Vínið hefur djúpan múrsteinsrauðan lit og þétta angan af leðri, tóbaki, kirsuberjum, plómum, hindberjum, súkkulaði, rifsber, sedrusviði og balsamediki. Í munni er vínið þurrt, með þétt, þroskuð tannín, góða sýru og góða fyllingu. Eftirbragðið silkimjúkt og heldur sér lengi. Frábært vín. 96 stig. Fimm stjörnur. Í vínbúðunum er nú að finna 2018-árganginn af þessu víni og það kostar 8.390 kr.

Beeslaar Pinotage 2018 er líklega besta Pinotage sem ég hef kynnst. Pinotage er þrúga sem var búin til í Suður-Afríku og nær eingöngu ræktuð þar. Nafnið er dregið af foreldrunum – Pinot Noir og Hermitage. Hermitage var talin sérstök þrúga en reyndist svo vera Cinsault, sem er mikið ræktuð í suðurhluta Rónardals. Vínið hefur djúpan rúbínrauðan lit og kröftugan ilm af plómum, kirsuberjum, súkkulaði, sólberjum, negul og vaillu. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með góð tannín og góða fyllingu. Langt og gott eftirbragð með vanillu, plómum, kirsuberjum, sólberjum, brómberjum, súkkulaði og mjúkri eik. Frábært vín. 95 stig. Fimm stjörnur. Vínið kostar 8.055 kr og þarf að sérpanta, en það er vel fyrirhafnarinnar (og peninganna) virði.

Barista Pinotage 2021 er ekki í sama gæðaflokki og Beeslaar, en engu að síður mjög áhugavert og gott vín. Vínið hefur rúbínrauðan lit og angan af kirsuberjum, hindberjum, leðri, eik og svörtum pipar. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með ríflega miðlungs tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið nokkuð gott og þar má vinna kirsuber, plómur, leður, hindber, eik og svartan pipar. 91 stig. Fjórar stjörnur. Mjög góð kaup – 2.620 krónur í Vínbúðunum.

Ég komst í mjög skemmtilega vínsmökkun í lok nóvember, þar sem ég smakkaði m.a. Tenuta Moraia Perpiero 2019. Þetta er ofur-Toscanavín, gert úr Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc og Sangiovese. Vínið hefur djúpan rúbínrauðan lit, með sólber, plómur, tóbak, vanillu, eik og smá sveppi í þéttum ilminum. í munni er vínið þurrt, sýruríkt með nokkuð hrjúf tannín, góða fyllingu og flott jafnvægi. Sólber, plómur, eik, tóbak og vanilla í löngu og góðu eftirbragðinu. Vínið hefur gott af góðri umhellingu ef það á að drekkast núna, en hefur sennilega enn meira gagn af nokkrum árum í geymslu. Frábært vín. 94 stig. Fimm stjörnur. Vínið kostar 11.999 krónur í Vínbúðunum.

L. Bérnard-Pitois Carte Blanche Brut Champagne Premier Cru kemur frá litlu fjölskyldufyrirtæki sem á þó tæplega 150 ára sögu í kampavínsgerð. Vínekrurnar eru premier cru og grand cru, staðsettar í Mareuil-sur-Aÿ sem er rétt austan við borgina Epernay. Vínið er að mestu gert úr Pinot Noir (75%), en í því er einnig Chardonnay (20%) og smá Meunier (5%). Vínið hefur fölgullin lit og angan af gulum eplum, ferskjum, apríkósum, límónum og sítrónum, ristuðu brauði og geri. Freyðir vel, með góða sýru og létta fyllingu. Eftirbragðið aðeins smjörkennt og heldur sér vel, með epli, ferskjur, perur, apríkósur, sítrónur og ristað brauð. Ljómandi gott kampavín. 90 stig. Fjórar stjörnur. Vínið fæst aðeins á Finvin.is og kostar 5.790 kr.

Jean Pabiot Pouilly-Fumé Domaine des Fines Caillottes 2021 er hreint Sauvignon Blanc frá Pouilly-Fumé í austurhluta Loire-dalsins í Frakklandi. Vínið hefur fölgulan lit og nokkuð flókinn ilm af greipaldin, stikilsberjum, perum, eplum, ananas, ferskjum, límónum, Cantaloupe-melónum, grasi og steinefnum. Vín er þurrt og sýruríkt með létta fyllingu. Eftirbragðið er frísklegt, heldur sér lengi, og þar má finna greipaldin, ananas, epli, perur, ferskjur, melónur, gras og steinefni. 92 stig. Fjórar og hálf stjarna. Mjög góð kaup (3.790 kr.)

Ég á svo nokkra dóma eftir í handraðanum sem ég ætla að setja út í upphafi nýs árs.

Vinir á Facebook