Gerard Bertrand Côte des Roses Rosé 2021

Það er að bera í bakkafullan lækinn að ætla að skrifa meira um Gerard Bertrand eftir umfjöllun síðustu vikna. Ég á þó eftir að fjalla um eitt rósavín frá Bertrand. Vínið sem hér um ræðir er í vörulínu sem kallast Cote des Roses. Nú gæti maður haldið að Cote des Roses væri skilgreint vínræktarsvæði en svo er ekki. Nafnið er hugsað sem óður til lífsins við Miðjarðarhafið og í þessari línu er að finna 3 önnur vín – eitt rauðvín og tvö hvítvín. Vínin koma að mestu af ekrum Bertrand í Narbonne en einnig eru sóttar þrúgur af öðrum svæðum og vínið því einfaldlega flokkað sem Languedoc.

Vínið er gert úr þrúgnum Grenache, Syrah og Cinsault. Strax við komu í víngerðina eru þrúgurnar kældar og kramdar varlega til að fá réttan lit á vínið. Safinn er svo gerjaður við lágt hitastig (líkt og flest öll rósavín). Fljótlega eftir gerjun er vínið svo hreinsað og tappað á flöskur.

Gerard Bertrand Côte des Roses Rosé 2021 er föl-laxableikt á lit, með blómlegan ilm af sítrónum, jarðarberjum, rauðri papriku, melónum, ferskjum, rifsberjum og hvítum pipar. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru og létta fyllingu. Í eftirbragðinu eru jarðarber, melónur, perur, ferskjur, rifsber, hvítur pipar og smá selta. 86 stig. Ágæt kaup (2.999) Nýtur sín best sem kaldur fordrykkur en fer líka vel með ljósu fuglakjöti, skelfiski og sushi. Sýnishorn frá innflytjanda.

Wine Enthusiast gefur þessu víni 87 stig og Wine Spectator gefur því 88 stig. Notendur Vivino gefa víninu 3,9 stjörnur (2752 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson í Víngarðinum gaf þessu víni 4 stjörnur.

Gerard Bertrand Côte des Roses Rosé 2021
Gerard Bertrand Côte des Roses Rosé 2021 nýtur sín best sem kaldur fordrykkur en fer líka vel með ljósu fuglakjöti, skelfiski og sushi.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook