Það eru bara nokkrir dagar til áramóta og ekki seinna vænna að fara að spá í áramótabúbblurnar. Flest erum við eflaust búin að ákveða hvað verður í matinn á gamlárskvöld og þeir sem vilja fá sér vín með matnum geta skoðað yfirlitið um jólavínin 2024, enda líklegast að áramótasteikin sé einnig á þeim lista. Öðru máli gegnir hins vegar um áramótabúbblurnar. Það hefur lengi verið til siðs að fagna tímamótum og gleðistundum með því að skála í freyðivíni – oftast kampavíni. Hér verður aðeins litið yfir það sem okkur stendur til boða í vínbúðunum.
Kampavín eða „venjulegt freyðivín“?
Kampavín hafa löngum verið sett skörinni ofar en önnur freyðivín – yfirleitt ekki að ástæðulausu. Úrval annarra freyðivína var löngum óspennandi en það hefur heldur betur breyst og okkur standa nú til boða ljómandi góð freyðivín frá öðrum vínræktarsvæðum en Champagne. Þau vín eru oft ódýrari en kampavín, enda framleiðsluferlið oft styttra og ódýrara. Sum freyðivín eru þó gerð á sama hátt og kampavín, þar sem jafn mikil áhersla er lögð á gæði og þið sjáið það líka yfirleitt í verðinu. Það er líka í góðu lagi að splæsa aðeins ef maður ætlar að gera vel við sig um áramótin alveg eins og við gerum með matinn – flest gerum við vonandi betur en að bjóða upp á SS-pylsur á gamlárskvöld…
Það fást margvísleg freyðivín í Vínbúðunum og netverslunum, en satt best að segja er stærstur hluti þeirra ódýrt sull sem ekki verður fjallað frekar um. Hér setti ég 3.000 kr sem lágmarksverð og skoðaði nánar tæplega 150 freyðivín. Ef þið viljið eitthvað ódýrara þá hafið þið samt úr 120+ vínum að velja.
Champagne
Kampavín – Champagne – koma frá samnefndu héraði í Frakklandi. Segja má að kampavín séu freyðivínin sem öll önnur freyðivín eru borin saman við. Í ljósi þess hvað ég er orðinn mikill aðdáandi kampavína er ótrúlegt að ég sé ekki búinn að skrifa almennilega grein um Champagne hér á Vínsíðunni – úr því verður bætt innan skamms.
Kampavín eru að mestu gerð úr þrúgunum Chardonnay, Pinot Noir og Meunier, en þó er heimilt að nota 4 aðrar þrúgur (hlutur þeirra er þó ákaflega lítill, minni en 1 prósent). Vínin eru búin til með s.k. hefðbundinni aðferð („kampavínsaðferð“) þar sem fyrst er búið til léttvín (oftast hvít) á hefðbundinn hátt. Þá er víninu tappað á flöskur og í flöskurnar er settur ger ásamt næringu fyrir gerinn. Í flöskunni á sér stað önnur gerjun, sem myndar loftbólurnar sem gerir vínin freyðandi. Kampavín þurfa að hvíla í a.m.k. 15 mánuði á flöskum áður en botnfallið sem myndast við seinni gerjunina er hreinsað frá og korktappinn settur í flöskuna. Árgangsvín þarf að geyma í a.m.k. 3 ár en oft eru þau geymd mun lengur en það.
Í verslunum Vínbúðanna fást um 70 kampavín í hefðbundinni stærð og í netverslun Sante fást um 40 kampavín í hefðbundinni stærð. Í báðum verslunum er einnig hægt að nálgast stærri flöskur. Kampavín eru almennt dýrari en önnur freyðivín – ódýrustu kampavínin fáanleg hér á landi eru rétt undir 6.000 krónum en þau dýrustu kosta yfir 60.000 krónur flaskan. Hér eru nokkur dæmi um kampavín á góðu verði fyrir áramótaveisluna.
- Drappier Carte d’Or Brut (5.700 kr. hjá Sante)
- EPC Blanc de Noirs Brut (5.899 kr í Vínbúðunum)
- Andre Chemin Little Dark Mountain Brut (6.199 kr í Vínbúðunum)
- Laherte Fréres Extra Brut Ultradition (6.200 kr hjá Sante)
- Hervieux Dumez Reserve Brut (6.998 kr í Vínbúðunum)
- Bereche et Fils Brut Reserve (7.800 kr hjá Sante)
- Vilmart & Cie Grand Cellier Premier Cru (8.000 kr hjá Sante)
- Taittinger Brut Reserve (7.990 kr í Vínbúðunum)
Crémant
Frönsk freyðivín, önnur en kampavín, kallast Crémant. Þau eru flest gerð á sama hátt og kampavín en þrúgurnar oftast aðrar. Verðið er almennt nokkuð hagstæðara en verð á kampavínum. Það er ágætt úrval af Crémant í Vínbúðunum og hér eru nokkur dæmi.
- Lucien Albrecht Brut Rose Cremant d’Alsace (3.190 kr í Vínbúðunum)
- Louis de Grenelle Grande Cuvee Brut (3.699 kr í Vínbúðunum)
- Domaine de Savagny Cremant du Jura Brut (3.499 kr í Vínbúðunum)
- Mure Cremant d’Alsace Prestige (3.999 kr í Vínbúðunum)
Prosecco
Prosecco er ítalskt freyðivín og líklega það freyðivín sem flestir þekkja (e.t.v. að kampavínum undanskildum). Vínin koma frá Veneto og Friuli-Venezia á Ítalíu og eru gerð úr þrúgunni Glera. Seinni gerjunin á sér stað í stáltönkum en ekki í flöskunni (Charmat-aðferðin), sem er mun ódýrara og fljótlegra en hefðbundna aðferðin („kampavínsaðferðin“ – seinni gerjun á sér stað í flöskunni). Vinsældir Prosecco hafa aukist mikið undanfarin ár og framleiðslan fjórfaldast á síðustu 15 árum – úr 150 í 600 milljón flöskur á ári! Betri Prosecco eru kennd við Conegliano Valdobbiadene (sumir framleiðendur eru þó farnir að sleppa Conegliano og merkja vínin sem Valdobbiadene Prosecco Superiore DOCG. Dæmi um góð Prosecco sem fást hér eru:
- Ardenghi Valdobbiadene Prosecco Superiore (3.090 kr í Vínbúðunum)
- Borgo Molino Prosecco Superiore Brut (3.190 kr í Vínbúðunum)
- Ruggeri Giustino B. Valdobbiadene Prosecco Superiore DOCG Extra Dry Millesimato (3.800 kr hjá Sante)
- Ruggeri Cartizze Valdobbiadene Prosecco Superiore DOCG Dry (4.200 kr hjá Sante)
Önnur ítölsk freyðivín
Ítalir gera ekki bara Prosecco. Freyðvín eru gerð í mörgum vínræktarhéruðum Ítalíu og sum þeirra eru gerð með hefðbundnu aðferðinni, þekktust eru líklega Franciacorta. Franciacorta koma frá Lombardy, eru gerð úr þrúgunum Chardonnay, Pinot Nero og Pinot Blanco. Reglur um framleiðslu eru keimlíkar reglum Champagne, en geymslutíminn er aðeins lengri en í Champagne.
- Antica Fratta Cuvee Real Brut (4.799 kr í Vínbúðunum)
Cava
Cava eru spænsk freyðvín, gerð með hefðbundnu aðferðinni. Um 95% framleiðslunnar er í Peñedes-héraði í Katalóníu, en Cava er einnig gert í fjölmörgum öðrum héruðum. Cava er að mestu gert úr þrúgunum Macabeo, Parellada og Xarel·lo, en einnig er heimilt að nota nokkrar þrúgur til viðbótar. Hefðbundið Cava þarf að vera a.m.k. 9 mánuði í flösku en annars eru reglurnar um Cava keimlíkar Champagne-reglunum varðandi þroskatíma og sykurmagn.
- Juve & Camps Brut Nature Gran Reserva (3.490 kr í Vínbúðunum)
- Castillo Perelada Touch of Rosé Cava (3.700 kr hjá Sante)
- Raventos i Blanc Blanc de Blancs Extra Brut (3.995 kr í Vínbúðunum)
- Raventos i Blanc de la Finca Brut Nature (4.990 kr í Vínbúðunum)
Önnur freyðvín
Það er nánast hægt að fullyrða að þar sem eru gerð léttvín, þar eru líka gerð freyðivín. Það eru mörg áhugaverð freyðivín frá öðrum vínræktarsvæðum fáanleg í Vínbúðunum – hér eru nokkur dæmi.
- Uivo PT Nat Rose Bruto Metodo Ancestral (Portúgal – 3.599 kr í Vínbúðunum)
- Escorihuela Gascon Extra Brut (Argentína – 4.191 kr í Vínbúðunum)
- Decoy Brut Cuvee (Bandaríkin – 5.212 kr í Vínbúðunum)
- Gusbourne Brut Reserve 2018 (Bretland – 6.490 kr í Vínbúðunum)