Þá er 27. starfsári Vínsíðunnar lokið. Ég hef venjulega birt áramótauppgjörið á Gamlársdag en ég náði því ekki í þetta sinn og því kemur uppgjörið á Nýársdag. Þetta starfsár var að vissu leyti rólegt, en einnig viðburðaríkt (ef það getur farið saman?). Ég skellti mér aftur til Champagne í nokkra daga, sem var einstaklega skemmtileg ferð – svo skemmtileg að ég er að fara aftur í febrúar en þá ætla ég reyndar líka að fara á Paris Wine Expo. Ég byrjaði í French Wine Scholar-náminu og skráði mig einnig í Champagne Master-nám hjá Wine Scholar Guild, en er ekki búinn með þessi námskeið – vonandi næ ég að ljúka þeim á þessu ári.
Árið 2024 í hnotskurn
Ég hafði ætlað mér að vera duglegri að skrifa, en þess í stað þá fækkaði víndómunum og ég birti aðeins 47 umsagnir hér á Vínsíðunni. Umfjöllunin var líka ansi einsleit þetta árið – 4 hvítvín, 3 sætvín og 40 rauðvín. Ég var alveg jafn örlátur á stjörnurnar þetta árið eins og ég var í fyrra. Af þessum 47 vínum fengu 14 vín 5 stjörnur og 19 fengur 4,5 stjörnur.
Samkvæmt Vivino var ég þó duglegri en svo og smakkaði alls 252 vín á árinu. Það er nánast eitt á dag alla virka daga – það hljómar ekki vel en sem betur fer var það þó ekki svo heldur er megnið af þessu hluti af vínsmökkunum þar sem mörg vín eru smökkuð í einu. Vivino segir mér að ég hafi smakkað 157 ólík rauðvín, 49 hvítvín og 29 kampavín. Flest voru þau frá Ítalíu (62) og það skýrist að miklu leyti af því að ég fékk að smakka 32 vín frá Sardiníu sem Óskar í Djarfa var að skoða m.t.t. innflutnings. Sum þeirra eru nú komin í Vínbúðirnar og önnur eflaust væntanleg. Mörg af þeim vínum sem ég prófaði á árinu fást ekki hérlendis og rötuðu því ekki á Vínsíðuna. Þá gerist það líka reglulega að sum vínin eru einfaldlega ekki nógu góð til að fá umfjöllun (það má svo alveg deila um það hvort það eigi líka að skrifa um „lélegu“ vínin).
Heimsóknir á Vínsíðuna þetta árið voru um 12.600 sem er smávægileg aukning frá 2023 og mesta aðsókn sem Vínsíðan hefur fengið á einu ári – kærar þakkir til allra sem heimsóttu Vínsíðuna! Mest lesna greinin, líkt og áður, eru hvernig á að elda svínarif (frá árinu 2014). Greinin um bestu kassavínín í vínbúðunum (sem er frá 2015) er ávallt vinsæl og segir mér að það er kannski orðið tímabært að skoða kassavínin aftur.
Vín ársins 2024
Líkt og áður var erfitt að velja vín ársins að þessu sinni, enda úr nægu að velja. Við valið horfi ég einkum á verð og gæði, en það skiptir líka máli hvort það sé eitthvað sérstaklega spennandi við þessi vín. Þannig er vín ársins sjaldnast besta vín sem ég smakka ár hvert en oft eru það þau vín sem mér finnst mest spennandi og skara þannig fram úr. Það á líka við um vín ársins að þessu sinni.
Vínið sem varð fyrir valinu að þessu sinni kom í reynslusölu í ágúst. Vínið kemur frá héraðinu Ribeira Sacra á norðvestur-Spáni. Ribeira Sacra er á meðal elstu vínhéraða Spánar. Vínekrurnar eru sumar í mjög miklum bratta, allt að 85% og vinnsla vínekranna getur verið mjög krefjandi. Þrúgan Mencía er ráðandi í Ribeira Sacra þar sem hún gefur af sér rauðvín með björtum ávaxtatónum, blómakeim og ferskri sýru. Vín ársins 2024 á Vínsíðunni er Matilda Nieves Ribeira Sacra Mencía 2020.
Matilda Nieves Ribeira Sacra Mencía 2020 hefur djúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu er þéttur ilmur af sólberjum, kirsuberjum, trönuberjum, leðri, plómum, hindberjum, vanillu, fjólum, súkkulaði, lakkrís og steinefnum. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, ríflega miðlungs tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér vel og þar má finna sólber, kirsuber, hindber, plómur, leðu, lakkrís og smá súkkulaði. 91 stig. Frábær kaup (3.190 kr). Fer vel með með rauðu kjöti hvers konar, ostum, pylsum og pizzum.
Þetta vín fékk 97 stig í Decanter World Wine Awards og titilinn Best in Show. Wine Enthusiast gefur því 88 stig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gaf þessu víni 4,5 stjörnur. Jancis Robinson gefur vínin 17/20 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (1.612 umsagnir þegar þetta er skrifað).