Hvernig á að elda svínarif

Vinsælustu leitarorðin sem leiðir fólk inn á Vínsíðuna eru svínarif og villibráð, þ.e. annað hvort er verið að leita að uppskriftum eða að víni með matnum.  Vinsælasta færslan á Vínsíðunni er „Svínarif að hætti hússins“ frá árinu 2009 og skammt undan er „Hin fullkomnu svínarif“ frá því í fyrra. (uppfært 03.05.2020 – sjá þessa færslu hér)
Fyrri færslan segir eiginlega ekki mikið um það hvernig rifin eru elduð (þau eru bara krydduð og elduð lengi í ofni við lágan hita).  Til að einfalda hlutina þá eru hér lykilatriðin við matreiðslu svínarifja.

Þegar þú hefur ekki allan daginn

Skerið rifin í hæfilega stóra bita (3-4 rif pr bita) og setjið í stóran pott.  Setjið vatn í pottinn þannig að fljóti yfir rifin.  Setjið í 10-15 svört piparkorn, 2-3 lárviðarlauf og 3-4 hvítlauksrif.  Saltið vel. Hitið að suðu og sjóðið í 15 mínútur.  Takið þá rifin úr pottinum, þerrið og kryddið með þeirri kryddblöndu sem þið viljið nota.  Grillið í 10-15 mínútur og snúið oft. Penslið með grillsósu að eigin vali í lokin.

Þegar þú hefur allan daginn til að elda rifin – grillað í lokin

Ef það á að marinera rifin er best að gera það daginn áður.  Ef notast er við kryddlög er best að láta megnið af honum drjúpa af áður en rifin eru elduð.  Hitið ofn í 160 °C.  Setjið rifin á grind og hafið ofnskúffu undir.  Bakið rifin í 2 klst, takið svo út og grillið í 15 mínútur, penslið með grillsósu á meðan.  Ef þú ætlar ekki að grilla rifin úti er gott að hækka hitann undir lokin og pensla þá með grillsósu. Einnig getur verið gott að hafa rifin í álpappír með á eldun stendur, þá verða þau safaríkari.  Álpappírinn er þá fjarlægður undir lokin, rifin pensluð  með grillsósu og grilluð í 15 mínútur.  Það getur líka verið gott að nota safann sem rennur úr kjötinu og safnast í álpappírinn ef maður gerir sína eigin grillsósu til að pensla með.

Þegar þú hefur allan daginn til að grilla rifin

Ef það á að marinera rifin er best að gera það daginn áður.  Ef notast er við kryddlög er best að láta megnið af honum drjúpa af áður en rifin eru elduð.  Grillið rifin í 2 klst við óbeinan hita og reynið að stilla hitann á grillinu í kringum 150 gráður.  Undir lokin er hitinn hækkaður og rifin grilluð yfir hitanum í 15 mínútur, penslið með grillsósu á meðan. Ef þú vilt fá reykbragð í rifin er hægt að setja viðarspæni í reykbox eða álpappír og hafa yfir hitanum í grillinu á meðan á eldun stendur.  Athugið að leggja viðarspæninn í bleyti í a.m.k. 30 mínútur áður en hann er settur á grillið.  Ef þú átt ekki reykbox getur þú set spæninn í álpappír, lokað vel og gert nokkur göt á álpappírinn til að hleypa reyknum út.  Einnig getur verið gott að hafa rifin í álpappír með á eldun stendur, þá verða þau safaríkari.  Álpappírinn er þá fjarlægður undir lokin, rifin pensluð  með grillsósu og grilluð í 15 mínútur.  Það getur líka verið gott að nota safann sem rennur úr kjötinu og safnast í álpappírinn ef maður gerir sína eigin grillsósu til að pensla með.

Hvernig á að krydda rifin?

Ekki nota tilbúnar kryddblöndur – gerðu frekar þínar eigin!  Flestar uppskriftir fyrir svínarif notast við papriku eða chili, salt, hvítlauk (eða hvítlaukssalt), pipar og svo eitthvað sætt, oftast púðursykur.  Grillsósur eru oftast byggðar á tómatgrunni og með rifjum hentar best að velja sætar grillsósur.

Hvað á svo að drekka með rifjunum?

Grilluð rif eru bragðmikil og kalla á bragðmikil vín.  Malbec frá Argentínu, Carmenére frá Chile eða Shiraz frá Ástralíu passa yfirleitt vel með rifjasteikinni.  Þeir sem ekki vilja vín geta fengið sér góðan bjór, t.d. Úlf nr 3, Bríó eða Brew Dog Punk IPA.

Uppfært 03.05.2020:

Þó svo að ofangreindar aðferðir eigi vel við enn í dag þá hefur eldamennskan mín þróast að einhverju leiti, einkum hvað varðar svínarif.  Hér er aðferðin eins og ég nota í dag.

Vinir á Facebook