Alþjóðlegi Malbec-dagurinn

Ég hef stundum minnst á ýmsa hátiðisdaga í vínheimum, en flestir eru þeir tileinkaðir ákveðnum þrúgum eða víntegundum. Síðast minntist ég á Rieslingdaginn 13. mars en svo hafa Vermút-dagurinn (21. mars) og Tannat-dagurinn (14. apríl) liðið án þess að ég hafi getið þess sérstaklega. Kannski er því um að kenna að ég er lítið fyrir Vermút og svo er ekkert vín úr Tannat fáanlegt í vínbúðunum.

Íslenskir vínáhugamenn kannast þó væntanlega flestir við Malbec, enda hefur þrúgan átt sína aðdáendur hér á landi og farið vel ofan í landann. Nú vill svo til að Malbec-daginn ber upp á Páskadag. Það hefur lengi verið til siðs að borða lamb á Páskadag og hvað passar betur með lambinu en Malbec?

Höfuðvígi Malbec í dag er í Argentínu, en uppruni þrúgunnar er þó í Frakklandi. Malbec er ein af þrúgunum sem leyft er að nota í Bordeaux og hún er mikið ræktuð í Cahors, þar sem hún gengur reyndar undir nafninu Auxerrois. Rauðvín frá Cahors voru reyndar notuð til að „bæta“ rauðvín frá Bordeaux í slæmu árferði. Eftir frostaveturinn 1956, þar sem um 75% vínviðarins drapst, skiptu bændur í Bordeaux meira yfir í aðrar tegundir, en í Cahors héldu menn áfram að rækta Malbec og gera enn í dag. Malbec þrífst best í heitu loftslagi og hún þarf sólskin til að þroskast almennilega.

Í vínbúðunum má finna um 20 vín sem er að mestu leyti eða eingöngu úr Malbec, og þau koma öll frá Argentínu. Flest fara þau vel með lambakjöti sem og öðru rauðu kjöti, og verðið er almennt nokkuð gott. Það er orðið nokkuð langt síðan ég prófaði sum af þessum vínum og önnur hef ég alls ekki náð að prófa. Það er kannski kominn tími á ítarlegri Malbec-úttekt?

Í lokin má svo benda á að alþjóðlegi Viognier-dagurinn er síðasta föstudag í apríl, sem í ár ber upp þann 29. apríl.

Vinir á Facebook