Deutsches_Weininstitut

Alþjóðlegi Riesling-dagurinn 13. mars

Þeir eru margvíslegir hátíðsdagarnir, og líklega getur maður fundið eitthvað til að halda upp á hvern einasta dag. Alls eru um 50 mismunandi „hátíðisdagar“ á hverju ári tileinkaðir vínum. Þrettándi mars ár hvert er Riesling-dagurinn, en viðskiptasamtökin Wines of Germany hafa lýst 13. mars 1434 sem „opinberum“ afmælisdegi Riesling. Í kjallaraskrá nokkurri frá Hessische Bergstrasse eru tilgreind kaup á 6 „Riesslingen“ vínviðum af John IV greifa af Katzenelnbogen í Rüsselsheim. Fyrsta skráða heimildin um „Riesling“ er reyndar frá árinu 1552, í heimildum frá þýska grasafræðingnum Hieronymus Bock.

Riesling mun hafa verið ræktaður í Rínardalnum í langan tíma og e.t.v. eru það upprunaleg heimkynni hans. Það var þó ekki fyrr en á 16. öld sem Riesling náði vinsældum. Við endalok þrjátíu ára stríðsins árið 1648 fengu Frakkar yfirráð yfir Alsace. Margar vínekrur voru illa farnar eftir stríðið. Ónýtar plöntur voru fjarlægðar og í staðinn settar Riesling-plöntur. Riesling dafnaði vel í Alsace og vinsældirnar jukust. Þetta fréttist yfir til Þýskalands og árið 1720 lét Schloss Johannisberg rífa upp vínekrur sínar og gróðursettu Riesling í staðinn. Mosel fylgdi fljótlega á eftir og árið 1787 ákvað Clemens Wenzeslaus, kjörfursti Trier, að allur „lélegur“ vínviður skyldi rifinn upp og Riesling ræktaður í staðinn.

Nítjánda öldin var blómatímabil Riesling. Bestu Riesling-vín frá Þýskalandi voru sett á sama stall og bestu rauðvín frá Bordeaux og Bourgogne. Á þessum tíma var Riesling mest ræktaða þrúga Þýskalands. En heimsstyrjaldirnar tvær léku þýska víngerð grátt. Eftir stríðin voru þýskar vínekrur illa farnar og þegar átti að endurreisa víngerðina var áherslan lögð á magn umfram gæði. Í stað Riesling voru víða ræktaðar þrúgur eins og Silvaner og Müller-Thurgau, sem eru auðveldar í ræktun, þroskast snemma og gefa ríkulega uppskeru. Fjöldaframleidd vín á borð við Liebfraumilch yfirgnæfðu þá litlu gæðaframleiðslu sem eftir var.

En Riesling náði sér aftur á strik og árið 1996 var hún aftur orðin mest ræktaða þrúgan í Þýskalandi. Riesling er nú ræktuð í öllum heimsálfum (nema Suðurskautinu) og hægt er að nálgast frábær vín frá Alsace í Frakklandi ásamt Austurríku, Ástralíu og Washington og New York í Bandaríkjunum.

Margir hugsa eflaust um dísæt vín þegar Riesling er annars vegar. Riesling er hins vegar (að mínu mati) best þegar vínið er þurrt og ef þið eru tilbúin að borga um 4-5000 krónur þá getið þið keypt frábær vín í vínbúðunum. Á hinn bóginn eru dísæt vín á borð við Auselse úr Moseldalnum alveg stórfengleg og þau geta þolað áratuga geymslu.

Í dag er hægt að fá 38 mismunandi Riesling-vin í vínbúðunum, en þar af eru 4 sem þarf að sérpanta. Það má gera mjög góð kaup t.d. í eftirfarandi vínum:

Vinir á Facebook