Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling 2017

Riesling á sér langa sögu. Elstu heimildir um Riesling eru frá árinu 1402 og líklegast hefur hún verið ræktuð mun lengur í Þýskalandi og jafnvel fleiri löndum. Riesling telst vera ein af höfuðþrúgum hvítvínsgerðar, ásamt Chardonnay og Sauvignon Blanc, og er ræktuð víða um heim. Í Þýskalandi er Riesling mest ræktaða þrúgan og burðarás þýskra hvítvína. Þar er algengt að vínin séu aðeins sæt og stundum mjög sæt. Sæt Rieslingvín geta elst vel og þolað jafnvel áratuga geymslu. Þýsku hvítvínin eru yfirleitt ekki jafn áfeng og hvítvín annarra landa, gjarnan um 7-10% að styrkleika. Héraðið Alsace hefur í gegnum tíðina tilheyrt bæði Þýskalandi og Frakklandi og þar gegnir Riesling einnig mikilvægu hlutverki – nær yfir um 20% af vínekrum í Alsace. Franskur Riesling er ekki jafn sætur og sá þýski, og áfengismagnið er hærra. Þurrt Riesling þolir yfirleitt 5-15 ára geymslu, hálfsæt vín 10-20 ár og sæt vín þola oft 20-30 ár og jafnvel lengur.

Riesling hefur náð nokkuð góðri útbreiðslu í Nýja heiminum, einkum í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Hún er líka nokkuð algeng í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem hún er m.a. notuð í s.k. ísvín (þrúgan er tínd af vínviðnum eftir fyrsta næturfrost). Ástralskt Riesling er nokkuð frábrugðið þeim evrópska. Vínið er nánast alltaf þurrt og hefur aðeins annað bragð og áferð. Í Ástralíu er mun heitara en í Evrópu og ástralskt Riesling hefur þróast þannig að hýði þrúgunnar er mun þykkara en í Evrópu. Við víngerðina skiptir miklu máli að losa hýðið sem fyrst frá safanum til að koma í veg fyrir að of mikil tannín berist í vínið. Þá er safinn yfirleitt kældur meðan á víngerðinni stendur til að halda víninu sem ferskustu. Gerjunarhitastigið er mun lægra en almennt í víngerð, en Riesling er oft látið gerjast við 10° – 18° á meðan rauðvín er yfirleitt látið gerjast við 24° – 29°.

Steinolía í Riesling-vínum

Stundum er dálítil steinolíulykt af Riesling, og eflaust gæti sumum líkað illa við þennan ilm og jafnvel talið það galla á víninu. Þetta getur orðið meira áberandi í eldri vínum þar sem lyktin af víninu getur orðið kröftugri þegar það þroskast. Í Þýskalandi hafa margir framleiðendur reynt að breyta víngerðarferlinu til að losna við steinolíulyktina, jafnvel þó að það hafi neikvæð áhrif á þroska- og geymsluhæfni vínsins. Yngri neytendum í Þýskalandi virðist ekki líka við steinolíuna og jafnvel forðast betri Riesling-vín af þeim sökum.

Vín dagins

Helstu Riesling-vínekrur Ástralíu er að finna í Clare Valley og Eden Valley í Suður-Ástralíu. Clare Valley er heitari en Eden Valley og jarðvegurinn breytilegri, sem aftur skilar sér í fjölbreyttari vínum. Í Eden Valley er hins vegar að finna einna elsta Riesling-vínvið í heiminum, en Riesling var fyrst gróðursettur í Eden Valley árið 1847. Vínhús Penfolds á sér nánast jafn langa sögu, en fyrirtækið var stofnað árið 1844. Penfolds er auðvitað þekktast fyrir rauðvínin sín, en þaðan koma líka frábær hvítvín á borð við Yattarna (Chardonnay) og svo vín dagsins sem kemur frá Eden Valley. Saga þessa víns hefst á tíunda áratug síðustu aldar, og fyrsti árgangurinn leit dagsins ljós árið 1999. Hér er um að ræða hreint Riesling sem var látið liggja í stáltönkum í 3 mánuði fyrir átöppun og hefur því aldrei komist í snertingu við eik (Ástralskur Riesling er yfirleitt ekki látinn á eikartunnur).

Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling

Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling 2017 er fölgult á lit, unglegt. Í nefinu eru perur, apríkósur gul epli, sítrusbörkur og steinefni. Í munni er vínið frísklegt, með góða sýru og fínan ávöxt. Sítrónubörkur, Granny Smith epli, perur og steinefni í þægilegu eftirbragðinu. Fer vel með ljósu fuglakjöti, fiskréttum og svínakjöti. 90 stig (4.669 kr). Mun njóta sín vel næstu 5-10 árin.

Robert Parker gefur þessu víni 89 stig, en næstu árgangar á eftir eru að fá 92-93 stig og verður spennandi að prófa þá. Notendur Vivino gefa þessu víni 3,7 stjörnur (201 umsögn þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur þessu víni 88 stig.

Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling 2017
Penfolds Bin 51 Eden Valley Riesling 2017 er frísklegt og skemmtilegt vín sem fer vel með ljósu fuglakjöti, fiskréttum og svínakjöti.
4.5
90 stig

Vinir á Facebook