Matsu El Viejo 2017

Það hefur varla farið fram hjá lesendum Vínsíðunnar að spænsk rauðvín hafa fallið vel í kramið hjá mér undanfarin ár og verið fyrirferðarmikil. Mest hefur borið á vínum frá Rioja en stöku sinnum vín frá öðrum héruðum Spánar, þar á meðal frá Toro. Líklega fjalla ég allt of lítið um vínin frá Toro því eftir því sem ég prófa þau oftar verð ég sífellt hrifnari. Einn besti spánverji sem ég hef nokkurn tíma prófað – Numanthia 2004 – er einmitt frá Toro. Áður en einhver fer að tala um Vega Sicilia er best að nefna strax að ég hef nokkrum sinnum prófað þau vín en er samt á því að Numanthia slær þeim við.

Vínhús Matsu er ung víngerð í eigu Vintae-samsteypunnar, sem á nokkur vínhús á Spáni. Matsu framleiðir aðeins 4 vín – öll rauð. Þrjú þeirra eru fáanleg í vínbúðunum – El Picaro (Fanturinn), El Recio (sá harði) og El Viejo (sá gamli), og vonandi sjáum við flaggskipið Matsu í vínbúðunum síðar meir.

Ég fjallaði um El Picaro – Fantinn – sl. vetur og var mjög hrifinn af því enda frábær kaup í því víni. Í sumar prófaði ég El Recio – þann harða – og var einnig mjög hrifinn, þó engin umsögn hafi komið hingað á Vínsíðuna.

Vín dagsins

El Viejo – sá gamli – er líkt og hin vínin frá Matsu gerð úr 100% Tinto de Toro (Tempranillo). Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í 16 mánuði á tunnum úr franskri eik. Vínið er ekki síað (mildari hreinsunaraðferðum er beitt, að sögn Matsu) og því má búast við einhverju botnfalli í flöskunum og vínið getur verið örlítið skýjað. Vínin frá Matsu eru ekki hugsuð til langrar geymslu, heldur eru þau tilbúin og í toppstandi nú þegar.

Matsu El Viejo 2017

Matsu El Viejo 2017 er djúp-fjólurautt á lit, aðeins skýjað, unglegt með góða dýpt. Í nefinu eru kirsuber, brómber, leður, vanilla, eik, pipar og krydd. í munni eru góð tannín, fin sýra og ávöxtur. Plómur, leður, eik og smá vanilla í góðu eftirbragðinu. Fer vel með öllum góðum steikum. 93 stig. Góð kaup (4.880 krónur). Drekkist á næstu 5 árum.

Robert Parker hefur gefið fyrri árgöngum 88-94 stig, en Wine Spectator hefur aðeins fjallað um 2015-árganginn (91 stig). Notendur Vivino eru mjög hrifnir af þessu víni – 2017-árgangurinn fær 4.2 stjörnur (182 umsagnir þegar þetta er skrifað) og meðaleinkunn allra árganga eru 4.3 stjörnur.

Matsu El Viejo 2017
Matsu El Viejo 2017 frá Toro-héraði á Spáni fer vel með öllum góðum steikum. Góð kaup!
5
93 stig

Vinir á Facebook