Marques de Grinon Graciano 2019

Þrúguna Graciano sjáum við nokkuð oft í spænskum vínum, einkum frá Rioja og Navarra. Á vefsíðu Vínbúðanna koma upp 62 vörur þegar leitað er að Graciano. Í 61 tilviki er þrúgan hluti af blöndunni, en í einu tilviki er um að ræða hreint Graciano. En af hverju er þessi þrúga alltaf í aukahlutverki?

Graciano er einkum ræktuð í Rioja og Navarra á Spáni, en hún er líka ræktuð í litlu magni í Ástralíu og Kaliforníu, og hana má einnig finna í Languedoc í Frakklandi, þar sem hún er kölluð Morrastel. Hér er rétt að benda á þetta er ekki sama þrúga og Monastrell (sem heitir reyndar Mataro í Portúgal og ýmsum löndum Nýja heimsins, og Mourvedre í Frakklandi). Þetta er dökk þrúga sem gefur af sér vín með miðlungs tannín, djúpan lit og nokkuð kröftugan ilm. Líkt og þrúgan Petit Verdot, sem hefur svipaða eiginleika (öflugur ilmur og djúpur litur) þá er Graciano einkum notuð til íblöndunar við aðrar þrúgur, en hún fær sjaldnast að njóta sín ein og óstudd.

Þó að Graciano sé vinsæl hjá víngerðarmönnum þá er hún ekki jafn vinsæl hjá vínbændum, a.m.k. ekki sjálfstæðum vínbændum sem selja þrúgur sínar til annarra fyrirtækja. Uppskeran er yfirleitt mun minni en af öðrum vínvið, og þá er þrúgan viðkvæm fyrir myglu. Graciano kemur því yfirleitt fyrir í vínum vínhúsa sem rækta sinn eigin vínvið.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Markgreifans af Griñon. Landareign Markgreifans í Dominio de Valdepusa í Castilla-La Mancha hefur verið í eigu fjölskyldunnar frá árinu 1292 og líklega hefur vínviður verið ræktaður þar enn lengur. Landareignin var sú fyrsta (ásamt Finca Elez) til að fá útnefninguna Vino de Pago, sem er efst í metorðastiga spænskrar víngerðar og aðeins úthlutað til landareigna sem stöðugt gefa af sér sérstök vín í hæstu gæðum. Samkvæmt reglum um Vindo de Pago þurfa allar þrúgur í vínunum að vera ræktaðar, gerjaðar og þroskaðar á landareigninni.

Eins og áður var nefnt þá eru tiltölulega fá vínhús sem búa til hreint Graciano eða Petit Verdot. Marqués de Griñon gerir þó bæði hreint Graciano og Petit Verdot. Bæði þessi vín eru líka fáanlega í Vínbúðunum og vínáhugamenn ættu endilega að kynna sér þessi vín.

Marques de Grinon Graciano Dominio de Valdepusa Vino de Pago 2019 er hreint Graciano, sem að lokinni gerjun fékk að liggja í 20 mánuði á nýjum og notuðum tunnum úr franskri eik. Vínið hefur djúpan rúbínrauðan lit og þéttan ilm af brómberjum, bláberjum, sólberjum, svörtum kirsuberjum, kaffi, kanil, tóbaki, eik og dökku súkkulaði. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er nokkuð langt, heldur sér vel og þar má finna bláber, sólber, kaffi, tóbak, dökkt súkkulaði, svört kirsuber og eik. 93 stig. Góð kaup (7.590 kr). Tilvalið með lambi, naut og villibráð.

James Suckling gefur þessu víni 92 stig. Notendur Vivino gefa víninu 4,1 stjörnu (71 umsögn þegar þetta er skrifað). Vínið fékk 92 stig í Decanter World Wine Award árið 2022.

Marques de Grinon Graciano 2019
Góð kaup
Marques de Grinon Graciano er tilvalið með lambi, naut og villibráð.
4.5
93 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook