Dominio de Atauta Ribera del Duero 2020

Vínhús Dominio de Atauta er til þess að gera ungt vínhús sem byggir á gömlum merg, eða öllu heldur gömlum vínvið. Sumar af vínekrum vínhússins eru yfir 160 ára gamlir og þar má meira að segja finna vínvið frá því fyrir daga rótarlúsarinnar illræmdu, sem lagði evrópska víngarða í rúst á seinni hluta 19. aldar. Spænskar vínekrur fóru reyndar mun betur út úr þeim faraldri en vínekrur annarra landra, því spænskar vínekrur eru margar hverjar sendnar og rótarlúsin þrífst illa í sendnum jarðvegi.

Vínhús Dominio de Atauta er nú í umsjá Jaime Suarez Pardo og Ismael Sanz, sem hafa annast víngerðina frá árinu 2015. Vínhúsið á 24 hektara af vínekrum, en hefur einnig umsjón með 32 hektörum til viðbótar. Vínekrurnar eru austast og efst í Ribera del Duero. flestar í um 900 – 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Framleiðslan fylgir reglum um lífræna og biodynamíska framleiðslu, þó enn hafi ekki fengist vottun fyrir því.

Á vínekrum Dominio de Atauta er nær eingöngu að finna þrúguna Tinto Fino (betur þekkt sem Tempranillo), en þar er líka að finna 140 ára gamlan Albillo Mayor-vínvið. Albillo Mayor gefur af sér grænar þrúgur og úr þeim eru gerðar rúmlega 2.700 flöskur af hvítvíni.

Dominio de Atauta gerir einnig 6 rauðvín – þar af 3 einnar-ekru rauðvín sem eru framleidd í 750-1500 eintökum árlega. Heildarframleiðslan Dominio de Atauta er á bilinu 60 – 120 þúsund flöskur, allt eftir gæðum hvers árgangs.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur einnig af gömlum vínvið, um 120-160 ára gömlum. Vínið er þroskað í eikartunnum (15% nýjar tunnur) og steyptum tönkum. Að lokinni blöndun fékk vínið að hvíla 4 mánuði í stórum eikarámum áður en það fór svo á flöskur í júlí 2022. Alls voru gerðar 56.335 flöskur (750 ml) og 900 magnum-flöskur.

Dominio de Atauta Ribera del Duero 2020 hefur djúpan rúbínrauðan lit, og þéttan, flókinn ilm af sólberjum, brómberjum, kirsuberjum, súkkulaði, kirsuberjalíkjör, plómum, fjólum, vanillu, leðri, kryddjurtum, eik og tóbaki. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, góð tannín og langt, þétt eftirbragð, þar sem dökk ber, tóbak, leður, vanilla og eik eru áberandi. 95 stig – frábært vín. Frábær kaup (5.690 kr.). Vínið fór einstaklega vel með grilluðu ribeye, en myndi líka sóma sér vel með lambi, svepparéttum og hvers kyns réttum þar sem svartar trufflur ráða för. Vínið er mjög gott núna en hefur eflaust gott af 2-3 ára geymslu til viðbótar.

Wine Spectator gefur þessu víni 90 stig. Robert Parker gefur því 94 stig, Tim Atkin gefur 93 stig og James Suckling gefur einnig 93 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni að meðaltali 4,2 stjörnur (236 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Dominio de Atauta Ribera del Duero 2020
Frábær kaup
fór einstaklega vel með grilluðu ribeye, en myndi líka sóma sér vel með lambi, svepparéttum og hvers kyns réttum þar sem svartar trufflur ráða för.
5
95 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook