Domaines Ott Étoile Rosé 2020

Fyrir skömmu sagði ég frá Domaines Ott í Provence-héraði. Ott hefur lengi skarað fram úr flestum öðrum vínhúsum þegar rósavín eru annars vegar og er án ef eitt af bestu vínhúsum Frakklands þegar rósavín eru annars staðar. Það er því við hæfi að ljúka þessu rósavíns-maraþoni Vínsíðunnar með umfjöllun um flaggskip Domaines Ott – Étoile.

Fyrsti árgangur Étoile er 2019 og er afrakstur þess besta sem vínekrur Domaines Ott gefa af sér. Þrúgurnar eru teknar af öllum víngörðum Ott – Clos Mireille, Château de Selle og Château Romassan. Hugmyndin á bak við þessa blöndu er að sækja mismunandi eiginleika sem hlýst af mismunandi jarðvegi á vínekrunum. Vínekrurnar eru bæði í Côtes-de-Provence og í Bandol. Blöndun þrúga frá þessum héruðum hefur almennt ekki verið stunduð í Provence og fellur utan við regluverkið um víngerð í Provence. Vínið flokkast því sem Vin de France, en segja má að það sé í sömu sporum og Tignanello og Sassicaia voru í upphafi 8. áratugar síðustu aldar, þegar fyrstu ofur-Toscana vínin komu fram. Sérstaða þeirra og gæði urðu að lokum til þess að reglunum var breytt.

Önnur dæmi um frönsk „ofurvín“ sem eiga kannski eftir að breyta regluverkinu eru Zind frá Zind-Humbrecht í Alsace (gert úr Chardonnay, sem ekki er leyft í Alsace-vínum) og Chateau Palmer Historical XIXth Century Blend frá Bordeaux (notar líka þrúgur frá Rhône, sem var algengt á 19. öld en er ekki leyft í dag). Umdeildast er þó líklega L’Interdit frá Clos Badon Thunevin í St. Emilion. Árið 2000 breiddu víngerðarmenn Clos Badon Thunevin plastsegl yfir vínviðinn til að hlífa vínviðnum fyrir mikilli úrkomu. Slíkt er bannað í Bordeaux og vínið var því fært niður í gæðaflokki og ekki leyft að kenna það við Bordeaux. Líklega er það eitt besta Vin de France sem hefur verið búið til…

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr þrúgunum Grenache (80%) og Mourvèdre (20%), sem koma af vínekrum í Côtes-de-Provence og Bandol. Að lokinni gerjun var fjórðungur vínsins látinn hvíla í keramik-tönkum en afgangurinn í stáltönkum. Að mati víngerðarmanna Domaines Ott dregur keramikið fram ávaxtatóna í víninu á annan hátt en stálið. Étoile þýðir stjarna, og þetta vín er óneitanlega skærasta stjarna Domaines Ott.

Domaines Ott Étoile Rosé 2020 er föl-laxableikt á lit, með ljúfum ilm af ferskjum, lychee, stikilsberjum, jarðarberjum, perum, eplum, nektarínum og smá suðrænum tónum. Í munni er vínið þurrt og sýruríkt, með létta fyllingu. Eftirbragðið er silkimjúkt og heldur sér vel, með ferskjur, melónu, stikilsber, jarðarber, perur, epli og steinefni. 95 stig. Frábært vín en nokkuð dýrt (15.567 kr). Fer vel með ljósu fuglakjöti, skelfiski og salati, en ég myndi helst drekka þetta eitt og sér. Þetta er besta rósavín sem fæst á Íslandi – punktur! Þetta vín fæst aðeins hjá Affblitzz.is

Robert Parker gefur þessu víni 94 stig, en Wine Spectator gefur því 91 stig. Falstaff gefur því 94 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,5 stjörnur (44 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Domaines Ott Étoile Rosé 2020
Frábært vín
Fer vel með ljósu fuglakjöti, skelfiski og salati, en ég myndi helst drekka þetta eitt og sér. Þetta er besta rósavín sem fæst á Íslandi - punktur!
5
95 stig

Vinir á Facebook