Marqués de la Concordia Rioja Santiago Reserva Cuarto Año 2016

Vínhús Marqués de la Concordia á sér gamlar rætur sem ná aftur til ársins 1870 þegar vínhús Rioja Santiago var stofnað. Rioja Santiago mun vera næst-elsta vínhúsið í Rioja og eitt af þremur vínhúsum sem fá að bera orðið Rioja í nafninu. Í dag er Rioja Santiago í eigu Marqués de la Concordia, sem aftur er í eigu Hacienda Company, sem er m.a. í eigu markgreifynjunnar af Griñon. Faðir markgreifynjunnar, Carlos Falco, var mikill frumkvöðull í víngerð (og ólífuolíugerð) í Rioja. Hann tók til dæmis upp á því að rækta Cabernet Sauvignon í Dominio de Valdepusa, sem þóttu auðvitað mikil helgispjöll. Hann bætti svo um betur og fór að rækta Syrah og Petit Verdot. Vínin slógu hins vegar í gegn og að lokum fékk vínekran skilgreiningu vino del Pago, sem er efsti gæðastimpill spænskrar víngerðar.

Undir hatti Marqués de la Concordia eru 8 vínhús á Spáni, auk brugghúsa sem gera romm og gin. Þar á meðal eru Hacienda Zorita og MM sem eiga fulltrúa í Vínbúðunum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Rioja-héraði á Spáni. Þrúgurnar (100% Tempranillo) koma af vínekrum í Rioja Alta og Rioja Alavesa. Vínið er gerjað í stáltönkum og er svo látið hvíla í 24 mánuði á amerískum og frönskum eikartunnum.

Marqués de la Concordia Rioja Santiago Reserva Cuarto Año 2016 hefur miðlungsdjúpan kirsuberjarauðan lit en er farið að sýna örlítinn þroska. Í nefinu er nokkuð dæmigerð Rioja-angan – kirsuber, plómur, kakó, kókos, negull, kakó, sólber og rautt kjöt (villibráð). Vínið er þurrt, nokkuð sýruríkt og með ágæt tannín sem eru samt nokkuð mjúk. Jafnvægið er gott og í eftirbragðinu finnur maður kirsuber, plómur, eik, kakó, negul, sólber og balsam. 91 stig. Mjög góð kaup (3.463 kr). Fer vel með góðri steik – naut, lamb, svín eða villibráð, en fer líka vel með þroskuðum spænskum ostum á borð við Manchego. Sýnishorn frá innflytjanda.

Tim Atkin gefur þessu víni 91 stig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur því 4,5 stjörnur og Notendur Vivino gefa því 3,9 stjörnur (601 umsögn þegar þetta er skrifað)

Marqués de la Concordia Rioja Santiago Reserva Cuarto Año 2016
Mjög góð kaup
Marqués de la Concordia Rioja Santiago Reserva Cuarto Año 2016 fer vel með góðri steik - naut, lamb, svín eða villibráð, en fer líka vel með þroskuðum spænskum ostum
4.5
91 stig

Vinir á Facebook