Roda Reserva Rioja 2020

Stundum er skammt stórra högga á milli. Ég hafði ekki fjallað um vínin frá Bodegas Roda í mörg ár en nú kemur þriðja greinin á tæpum mánuði þar sem Roda kemur við sögu! Ég skrifaði um 2019-árganginn (93 stig, mjög góð kaup) og svo fór Roda Reserva á nýjasta listann minn um bestu kaupin í Fríhöfninni.

Það er óþarfi að fjalla mikið meira um vínhús Roda í þessum pistli, en þó er áhugavert að nú er Roda í fyrsta sinn að senda frá sér hvítvín! Vínið nefnist Roda I Blanco, er gert úr Viura og hefur legið 18 mánuði á eikartunnum. Vínið hefur fengið afbragðs viðtökur gagnrýnenda og vonandi gefst okkur hér á Fróni tækifæri til að bragða það á næstunni.

Vín dagsins

Vín dagsins er Reserva-vín Roda úr 2020-árgangnum, gert úr þrúgunum Tempranillo (89%), Garnacha (6%) og Graciano (5%). Að lokinni gerjun var vínið 14 mánuði á frönskum eikartunnum (40% nýjar tunnur, 60% höfðu verið notaðar einu sinni áður), og það fékk svo 22 mánuði á flösku áður en það fór í sölu.

Árgangurinn er um margt sérstakur, því það ár var í fyrsta skipti ákveðið að skerða leyfilega uppskeru niður í 90% af því sem venjulega er heimilt. COVID réði þar mestu um (skortur á vinnuafli, óvissa á mörkuðum) en vaxtarskilyrði voru einnig óhagstæð í Rioja þetta árið (frost að vori, óvenjumikil rigning, haglél og svo hitabylgja í júlí og ágúst). Þrátt fyrir þetta varð árgangurinn með ágætum (líkt og allur síðasti áratugur hefur verið).

Roda Reserva Rioja 2020 hefur djúpan rúbínrauðan lit, með kröftugan ilm af sólberjum, leðri, vanillu, eik, plómum, súkkulaði, sedrusvið og hindberjum. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með rífleg miðlungstannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og heldur sér vel, og þar má greina kirsuber, kakó, leður, plómur, kanil, eik, kaffi og vanillu. 93 stig. Mjög góð kaup (5.699 kr í Vínbúðunum, 4.199 kr í Fríhöfninni). Fer vel með góðri nautasteik, lambi, iberico skinku, Taco og Manchego osti.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (299 umsagnir þegar þetta er skrifað). James Suckling, Robert Parker og Tim Atkin gefa því allir 93 stig.

Roda Reserva Rioja 2020
Góð kaup
Roda Reserva Rioja 2020 fer vel með góðri nautasteik, lambi, iberico skinku, taco og Manchego osti.
4.5
93 stig

Vinir á Facebook