Francois Martenot Crémant de Bourgogne Brut 2020

Vínhús François Martenot fagnaði 100 ára afmæli í fyrra. Starfsemin hófst þegar Lucien Gustave Martenot keypti 10 hektara jörð í Savigny-lès-Beaune. Vínrækt á þessari landareign hófst þó 70 árum áður, þegar jörðin komst í eigu hins magnaða Léonce Bocquet sem þá átti Château du Clos Vougeot. Bocquet lét ryðja ekrurnar og gróðursetti vínvið. Martenot eignaðist því vel grónar vínekrur og hóf strax að gera góð vín. Fyrirtækið hefur dafnað í eigu Martenot-fjölskyldunnar sem í dag ræður yfir 270 hektörum af vínekrum í Chablis, Côte de Nuits, Côte de Beaune, Côte Chalonnaise og Mâconnais.

Crémant kallast frönsk freyðivín sem eru gerð með sömu aðferð og kampavín. Ég tók saman stutt yfirlit yfir helstu Crémant-héruðin í fyrra – sjá nánar hér. Í stuttu máli er kampavínsaðferðin sú að fyrst er búið til venjulegt hvítvín sem síðan er tappað á flöskur, geri og sykri bætt út í og vínið látið gerjast aftur í flöskunni. Gerið er svo látið botnfalla og fjarlægt úr flöskunni með því að frysta botnfallið þegar það er komið niður að tappanum. Áhugasamir geta lesið sér til um mismunandi aðferðir við að búa til freyðivín í þessu ágæta yfirlit á Wine Folly.

Vín dagsins

Vín dagsins er Crémant frá Bourgogne-héraði. Það er gert úr þrúgunum Chardonnay, Pinot Noir og Gamay. Vínið var látið hvíla í 12 mánuði „sur lie“ áður en gerið var botnfellt og hreinsað úr.

Francois Martenot Crémant de Bourgogne Brut 2020 er fölgult á lit og freyðir fínlega. Í nefinu finnur maður gersveppi, epli, perur, ristað brauð, steinefni, hunang, greipaldin, rjóma og appelsínubörk. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru og létta fyllingu. Í eftirbragðinu eru gersveppir, epli, perur, ristað brauð, steinefni, hunang, appelsínubörkur og smá lakkrístónar í lokin. 88 stig. Mjög góð kaup (2.799 kr). Njótið með sushi, fiskréttum, skelfiski, ljósu fuglakjöti eða bara eitt og sér sem kaldur fordrykkur. Góður valkostur við kampavín. Sýnishorn frá innflytjanda.

Vivino 3,8 stjörnur (763 umsögn þegar þetta er skrifað). 2018 og 2019 árgangarnir fengu báðir 88 stig hjá Wine Enthusiast. Þorri í Víngarðinum gaf þessu víni 3,5 stjörnur.

Francois Martenot Crémant de Bourgogne Brut 2020
Mjög góð kaup
Francois Martenot Crémant de Bourgogne Brut 2020 fer vel með sushi, fiskréttum, skelfiski, ljósu fuglakjöti eða bara eitt og sér sem kaldur fordrykkur. Góður valkostur við kampavín.
4
88 stig

Vinir á Facebook