Crémant

Ég er sannfærður um að flestir vínunnendur eru hrifnir af góðum freyðivínum. Mér finnst líka að þeir sem ekki eru hrifnir af freyðivínum ættu að kynna sér þau betur – kannski hafa þeir ekki fundið sitt vín, en það er af nógu að taka.  Við íslendingar drekkum jú gosdrykki hvers konar gríðarlegu magni, og hvað eru freyðivín annað en gosdr… Ókei, kannski ekki bara venjulegir gosdrykkir…

Freyðivín eru margvísleg, en flest þekkjum við eflaust Kampavín, Cava og Prosecco. Íslendingar hafa tekið ástfóstri við freyðivín undanfarin ár eins og sést á sölutölum ÁTVR. Sala á kampavínum hefur aukist um 260% frá 2017 og sala á freyðivínum hefur aukist um rúmlega 300%.

Kampavín þykja bera höfuð og herðar yfir önnur freyðivín – bæði hvað varðar verð (hátt) og gæði (mikil).  En er þessi gæða munur alltaf svo mikill að hann réttlæti miklu hærra verð?

Í Frakklandi eru framleidd freyðivín í flestum vínræktarhéruðum, þó svo að framleiðslan sé misjafnlega mikil og vínin auðvitað misjöfn.  Vín sem gerð eru með sömu aðferð og kampavín – methode traditionale (seinni gerjun á sér stað í flöskunni) – kallast einu nafni Crémant (nema auðvitað Champagne). Crémant er þó ekki alltaf með jafn mikinn þrýsting í flöskunum og Champagne – í Crémant er þrýstingurinn oft um 3,5 loftþyngdir en í Champagne er þrýstingurinn yfirleitt 5-6 loftþyngdir.

Líkt og gildir um Champagne þá er skylt að láta vín þroskast á gerinu (‘on lees’ í flöskunni) í tiltekinn lágmarkstíma, yfirleitt a.m.k. 9 mánuði. Í Bourgogne er í ákveðnum tilvikum skylda að láta vínin liggja enn lengur á flöskunni (sjá neðar). Í Champagne þurfa öll kampavín önnur en árgangsvín að liggja í minnst 12 mánuði (lágmarkstíminn fyrir árgangsvín eru 3 ár, þó þó liggi oft mun lengur en svo). Almennt ætti að drekka Crémant innan 2 ára eftir að þau eru keypt, en sum vín þola þó lengri geymslu.

Crémant eru flest undir áhrifum vínframleiðslu viðkomandi héraðs og þrúgurnar því oft aðrar en við sjáum í kampavínum.  Hér að neðan verður stuttlega farið yfir helstu Crémant-héruðin.

Crémant d‘Alsace

Vinsælasta Crémant í Frakklandi kemur frá Alsace. Saga freyðivína í Alsace mun vera rakin til ársins 1900, þegar Julien Dopff kom heim frá Heimssýningunni í París þar sem hann hafði kynnst freyðivínum.  Hann hét því að búa til jafngóð vín úr sínum eigin þrúgum og síðan þá hafa Crémant verið gerð í Alsace.  Í Crémant de Alsace er leyfilegt að nota allar hvítar þrúgur sem eru leyfðar í Alsace, auk Chardonnay.  Flest eru vínin blöndur Pinot Blanc eða Auxerrois, sem eru nokkuð hlutlausar þrúgur, og hinna hvítu þrúganna í Alsace. Pinot Gris gefur vínunum fyllingu, Chardonnay gefur mýkri áferð og Riesling getur gefið suðræna ávaxtatóna.

Í Crémant d‘Alsace er líka leyfilegt að nota Pinot Noir.  Hún er notuð í klassíska blöndu með Chardonnay og Pinot Noir, en öll Crémant d‘Alsace rosé eru eingöngu gerð úr Pinot Noir.

Crémant d‘Alsace eru nær eingöngu þurr og stundum er ekkert dosage (íbætt sykurlausn) í seinni gerjuninni.

Crémant de Loire

Freyðvín eru gerð víða í Loire-dalnum í vestur-Frakklandi. Freyðivín frá Anjou, Cherverny, Saumur og Touraine kallast Crémant, en önnur freyðivín frá Loire kallast einfaldlega freyðivín!. Freyðvínsgerð á sér langa sögu í Loire, einkum í þorpinu Saumur. Undir og í kringum Saumur eru gríðarmiklir kjallarar/hellar þar sem vínin eru geymd og þroskuð. Crémant de Loire eru í svipuðum stíl og hvít- og rósavín frá Loire.  Þau eru frískleg og létt, með hæfilega sýru, oft með smá steinefnakeim og ekki of ávaxtamikil. 

Víngerðarmennirnir hafa nokkuð frjálsar hendur við víngerðina og geta valið úr fjölmörgum mismunandi þrúgum til að nota í vínin.  Algengast er þó að nota klassískar Loire-þrúgur á borð við Chardonnay, Chenin Blanc, Cabernet Franc og Cabernet Sauvignon.  Stundum má líka sjá Grolleau Noir, Grolleau Gris, Orbois, Pineau d‘Aunis og Pinot Noir.  Sauvignon Blanc, sem er mjög algeng í austurhluta Loire, er hins vegar ekkert notuð í freyðivín þar sem hennar bragðeiginleikar þykja alls ekki henta í freyðivín.

Chardonnay er algengust í frönskum freyðvínum og svo er einnig í Loire, þar sem hún er undirstaðan ásamt Chenin Blanc.  Cabernet-þrúgurnar eru aðeins til staðar í rósa freyðivínum í Loire, en hlutur þeirra er frekar lítill.

Crémant de Bourgogne

Í Bourgogne eru gerð hvít og rósa freyðivín, sem geta verið allt frá skraufþurrum yfir í millisæt. Líkt og í Champagne eru gerð Crémant de Bourgogne Blanc de Blancs (eingöngu úr hvítum þrúgum) og Blanc de Noir (eingöngu úr svörtum þrúgum), og svo auðvitað blöndur hvítra og svartra þrúga.  Hvítu þrúgurnar í Bourgogne eru Chardonnay, Aligoté, Melon de Bourgogne og Pinot Blanc.  Svörtu þrúgurnar eru Gamay og Pinot Noir. 

Ársframleiðsla Crémant de Bourgogne er um 13 milljón flöskur og Crémant er gert í flestum héruðum Bourgogne, en bestu ekrurnar fara auðvitað undir hefðbundin hvítvín og rauðvín.  Þá reyna vínbændur oft að fá meiri uppskeru af þeim vínekrum sem nýttar eru í Crémant, en almennt reyna vínbændur oftast að takmarka uppskeruna til að auka gæðin.

Í Bourgogne eru gæðaþrep sem kallast Eminent og Grand Eminent.  Crémant de Bourgogne Eminent þarf að þroskast í minnst 24 mánuði í flöskunni þar sem seinni gerjun á sér stað. Crémant de Bourgogne Grand Eminent þarf að þroskast í minnst 36 mánuði.

Crémant í vínbúðunum

Þegar þessi grein er rituð finnast 16 mismunandi Crémant við leit í vöruúrvali vinbúðanna. Tólf þeirra koma frá Alsace, 2 frá Bourgogne og 2 frá Limoux. Dýrasta vínið kostar 4.490 kr og það ódýrasta kostar 2.490 kr. Til samanburðar er hægt að finna 91 kampavín (verðbil 4.989 – 38.407 kr og aðeins 3 undir 5.000 kr).

Vinir á Facebook