Gérard Bertrand Héritage „An 118“ IGP Coteaux de Narbonne Sauvignon 2020

Í gær skrifaði ég smá pistil um borgina Narbonne í suður-Frakklandi. Borgin á sér nokkuð merka sögu, enda fyrsta borgin sem Rómverjar byggðu upp í nýlendum sínum utan Ítalíu. Gérard Bertrand hefur verið duglegur að halda á lofti menningararfleifð suður-Frakklands og sendir frá sér vörulínuna Héritage. Vínin í þeirri línu eru kennd við mikilvæg ártöl í sögu suður-Frakklands. Vín dagsins er kennt við árið 118 fyrir Krist þegar borgin Narbonne var stofnuð. Áhugasamir um sögu Narbonne geta lesið pistil gærdagsins til að fræðast meira.

Vín dagsins

Vín dagsins er hreint Sauvignon Blanc, sem að lokinni gerjun var látið þroskast í 6 mánuði í stáltönkum.

Gérard Bertrand Héritage „An 118“ IGP Coteaux de Narbonne Sauvignon 2020 er föl-sítrónugult á lit, unglegt. Í nefinu finnur maður sítrusávexti, gras, aspas og steinefni. Í munni er ágæt sýra og létt fylling með greipaldin, aspas, gras og steinefni í ágætu eftirbragðinu. 87 stig. Góð kaup (2.299 kr). Drekkið með salati eða sjávarréttum, eða sötrið sem fordrykk á meðan steikin er á grillinu. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (578 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Gérard Bertrand Héritage „An 118“ IGP Coteaux de Narbonne Sauvignon 2020
Góð kaup
Gérard Bertrand Héritage "An 118" IGP Coteaux de Narbonne Sauvignon 2020 fer vel með salati og sjávarréttum, eða bara sem fordrykkur.
4
87 stig

Vinir á Facebook