Gérard Bertrand Heritage „An 118“ Coteaux de Narbonne Cabernet Sauvignon / Syrah 2020

Víngerðarmaðurinn Gérard Bertrand á vínekrur út um allar trissur í Languedoc-Rousillon, en hann kaupir líka þrúgur af vínbændum í héraðinu. Við Íslendingar þekkjum vel vínin frá Gérard Bertrand, enda hafa þau sum hver verið fáanleg um árabil í vínbúðunum. Vínin hafa flest fengið góðar viðtökur hérlendis og umboðsaðili Gérard Bertrand á Íslandi verið duglegur að koma nýjum vörulínum í hillurnar.

Gérard Bertrand virðist vera annt um menningararfleifð í suður-Frakklandi. Undanfarin ár hafa komið frá honum vín í s.k. Heritage-línu, þar sem nöfnin vísa til merkisatburða í sögu héraðsins. Þannig er vín dagsins kennt við ártalið 118 og kemur frá svæði kringum borgina Narbonne. (Þegar ég skrifaði þennan pistil var ég að væflast með hvort Narbonne sé bær, þorp eða borg. Það virðist ekki vera til neinar skilgreiningar á því hvenær þorp verður að bæ, eða bær að borg, a.m.k. ekki hvað varðar íbúafjölda. Borg virðist samkvæmt því sem ég kemst næst vera þéttbýli sem er með fleiri íbúa (?) en hefur líka meira mikilvægi í stjórnskipulegu og/eða táknrænu samhengi. Þeir sem vilja kafa dýpra í þessa flækju geta lesið þessa grein á Vísindavefnum eða þessa grein á Wikipedia. Í ljósi sögulegs mikilvægis Narbonne verður hún því nefnd borg í þessum pistli.)

Narbonne á sér nokkuð langa og merka sögu. Hún telst vera stofnuð af Rómverjum árið 118 fyrir Krist og hét þá Colonia Narbo Martius – almennt kölluð Narbo – og var gerð að höfuðborg hins nýstofnaða héraðs Gallia Transalpina. Gallia Transalpina var líka kölluð Provincia Nostra, því það var fyrsta skilgreinda landsvæði Rómaveldis utan Ítalíu.

Landfræðilega var borgin á mikilvægum stað, því þarna mættust vegirnir Via Domitia, sem tengdi Ítalíu við Spán, og Via Aquitania, sem lá til Atlantshafsins. Að auki lá hún við bakka árinnar Aude, sem þá var mikilvæg siglingaleið inn í Frakkland. Júlíus Sesar gaf hermönnum úr 10. herdeild sinni landsvæði í kringum Narbonne til að tryggja áhrif sín og yfirráð yfir svæðinu. Gallia Transalpina var síðar nefnt Gallia Narbonensis eftir borginni. Narbonne laut síðar yfirráðum Vísigota, Araba og annarra eftir að Rómaveldið leið undir lok. Áhugasamir um sögu Narbonne geta lesið meira í þessari grein á Wikipedia. Í dag búa um 55.000 manns í borginni Narbonne.

Vínrækt hefur auðvitað verið stunduð í nágrenni Narbonne allt frá tímum Rómverja. Í dag er þetta svæði skilgreint sem Coteaux de Narbonne og vín þaðan flokkast sem IGP Coteaux de Narbonne eða „sveitavín frá hlíðum Narbonne“. Stærstur hluti framleiðslunnar eru rauðvín. Flest eru þau úr Miðjarðarhafsþrúgum á borð við Grenache og Carignan, en Cabernet Sauvignon og Merlot eru líka algengar í rauðvínunum. Sauvignon Blanc og Chardonnay eru algengustu hvítu þrúgurnar. Vínbændur hafa annars nokkuð frjálsar hendur í víngerðinni og listinn yfir leyfðar þrúgur er nokkuð langur.

Vín dagsins

Vín dagsins er blanda Cabernet Sauvignon og Syrah. Gerjun fór fram í stáltönkum og að henni lokinni var vínið látið þroskast í 8 mánuði í tönkum áður en því var tappað á flöskur.

Gérard Bertrand Heritage „An 118“ Coteaux de Narbonne Cabernet Sauvignon / Syrah 2020 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, fjólur, kryddjurtir og bláber. Í munni eru miðlungstannín, rífleg sýra og þokkalegur ávöxtur. Sólber, bláber og kryddjurtir í eftirbragðinu. 87 stig. Góð kaup (2.599 kr). Drekkið með kjötmeti, pastaréttum eða þroskuðum ostum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (1.586 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Gérard Bertrand Heritage „An 118“ Coteaux de Narbonne Cabernet Sauvignon / Syrah 2020
Góð kaup
Gérard Bertrand Heritage "An 118" Coteaux de Narbonne Cabernet Sauvignon / Syrah 2020 fer vel með kjötmeti, pasta og þroskuðum ostum.
4
87 stig

Vinir á Facebook