Planeta Chardonnay Menfi 2021

Saga víngerðar á Sikiley nær langt aftur fyrir tíma Rómverja. Líklega hefur vínræktin borist þangað með Grikkjum um 4.000 árum fyrir Krist. Aðstæður til vínræktar á Sikiley eru eins og best verður á kosið. Þarna er hlýtt, nóg sólskin, hæfileg úrkoma og sjávarvindar koma í veg fyrir myglusjúkdóma í vínviðnum.

Á seinni hluta síðustu aldar hafði vínrækt á Sikiley einkum snúist um að framleiða eins mikið og hægt var, en minni áhersla var lögð á gæði. Hvítvínin voru (og eru) flutt til meginlandsins og þá einkum til Þýskalands, þar sem þau voru notuð í ódýr freyðivín. Á síðustu árum hafa Sikileyskir vínbændur þó girt sig í brók og leggja nú metnað sinn í að gera betri vín. Þetta er einkum að þakka framsýnum vínframleiðendum á borð við Planeta. Planeta-fjölskyldan var sannfærð um að hægt væri að gera framúrskarandi vín á Sikiley og þau hafa líka sýnt fram á það, svo um munar.

Helstu þrúgur Sikileyjar eru Nero d’Avola og Catarratto. Catarratto er mikið notað til íblöndunar í hvítvín frá Norður-Ítalíu, en það er líka notað í Marsala sætvín. Aðrar mikilvægar þrúgur er Nerello Mascalese (rauð þrúga) og Grillo, sem er hin undirstöðuþrúgan í Marsala sætvínum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Planeta á Sikiley, nánar tiltekið frá Menfi-héraði, sem er lítið vínhérað á suðvestur horni Sikileyjar. Vínið er hreint Chardonnay og það var látið gerjast á eikartunnum og að því loknu fékk það að hvíla áfram í eikartunnunum (frönsk eik) í 11 mánuði. Um 40% af eikartunnunum voru nýjar, en afgangurinn hafði verið notaður einu sinni eða tvisvar finnum áður

Planeta Chardonnay Menfi 2021 hefur miðlungsgullinn lit og ágæta dýpt. Í nefinu er ananas, vanilla, sítrónur, epli, sumarblóm, appelsínubörkur, ferskjur, selta, smjör, eik og engifer. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru og ágæta fyllingu. Eftirbragðið langt og margslungið, þar sem finna má ananas, smjör, vanillu, þroskuð epli, sítrónur, ferskjur, appelsínubörk, eik og engifer. 94 stig. Frábær kaup (5.370 kr). Fer vel með feitum fiski, svínakjöti, ljósu fuglakjöti, sushi, kálfakjöti og hvítmygluosti.

Wine Spectator gefur þessu víni 92 stig. Wine Enthusiast gefur því 93 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (2.038 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Planeta Chardonnay Menfi 2021
Frábær kaup
Planeta Chardonnay Menfi 2021 er frábært vín sem fer vel með feitum fiski, svínakjöti, ljósu fuglakjöti, sushi, kálfakjöti og hvítmygluosti.
5
94 stig

Vinir á Facebook