Vínskólinn við vatnið

Í fyrra skellti ég mér á skólabekk og fór að læra aðeins um vín. Það var víst ekki seinna vænna því ég var þá búinn að tjá mig um vín hér á Vínsíðunni í aldarfjórðung. Námið var á vegum Wine & Spirit Educations Trust (WSET) og var 3. stig vínfræða af fjórum. Ég tók þetta í fjarnámi við West London Wine School og vissulega var þetta erfitt – heilmikill lestur og svo þurfti ég að smakka rúmlega 60 vín meðan á náminu stóð. Nú er ég aftur sestur á skólabekk, nú við Wine Scholar Guild og er í tvöföldu námi – French Wine Scholar og Champagne Master.

Ég hafði í raun ekkert leitt hugann að svona námi fyrr en vinur minn, Björn Ingi Knútsson, benti mér á þetta. Björn er búinn að taka WSET-3 og einnig spænsk, ítölsk og frönsk vínfræði við Wine Scholar Guild. Björn tók sig líka til og opnaði vínskóla við Meðalfellsvatn þar sem hann er búsettur. Ég hafði um skeið hugsað mér að skella mér á námskeið hjá honum og lét loks verða af því nú fyrir skömmu. Ég bauð Guðrúnu konu minni og Guðfinnu eldri dóttur okkar með, og Óli og Selma vinir okkur komu einnig.

Björn tók vel á móti okkur, en hann hafði skipulagt námskeið sem var að hluta til grunnnámskeið og að hluta námskeið um Galisíu-hérað á Spáni. Námskeiðið var vel heppnað, og Björn bauð okkur upp á úrvalsvín ásamt því að fræða okkur um matar- og vínpörun. Björn er ekki bara víðlesinn um vínfræði, heldur er hann líka listakokkur og kann listina að para vín og mat.

Ég má til með að mæla með Vínskólanum við vatnið. Björn býður upp á margvísleg vínnámskeið, bæði fyrir byrjendur og lengra komna og þar ættu allir vínáhugamenn að geta átt ánægjulega kvöldstund.

Björn Ingi Knútsson, skólastjóri Vínskólans við vatnið

Vinir á Facebook