Matsu El Viejo 2021

Fyrir nokkrum árum fjallaði ég fyrst um vín frá vínhúsinu Matsu í Toro á Spáni. Toro-hérað hefur nokkra sérstöðu gagnvart flestum öðrum vínhéruðum Evrópu, því rótarlúsin illræmda – phylloxera – náði aldrei fótfestu þar. Rótarlúsin þrífst nefnilega ekki í sendnum jarðvegi líkt og er að finna í Toro. Fyrir vikið er víða að finna mjög gamlan vínvið í Toro, jafnvel frá því fyrir rótarlúsafaraldurinn.

Vínin frá Matsu hafa verið fáanleg í hillum Vínbúðanna í nokkur ár. Vínið sem hér er fjallað um hefur þó ekki náð sömu fótfestu og hin vínin frá Matsu, enda aðeins dýrara og dýrari vín komast síður inn í kjarnaverslanir Vínbúðanna.

Þegar ég fjallaði síðast um vín Matsu voru þeir aðeins að framleiða rauðvín. Nú hefur hvítvín – El Jefa (Stjórinn, eða öllu heldur Stýran) – bæst í hópinn frá þeim. Það vín er gert úr þrúgunni Malvasia – ekki beint þekktasta hvíta þrúgan á Spáni en þó ræktuð víða við Miðjarðarhafið. El Jefa er ekki enn komin í Vínbúðirnar en kannski verður breyting þar á?

Vín dagsins

El Viejo – sá gamli – er gert úr þrúgunni Tinto de Toro (betur þekkt sem Tempranillo). Að lokinni gerjun fékk vínið að hvíla í 16 mánuði á nýjum tunnum úr franskri eik.

Matsu El Viejo 2021 hefur djúpan rúbínrauðan lit og þéttan ilm af kirsuberjum, brómberjum, sólberjum, vanillu, leðri, eik, kókós, súkkulaði og negul. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er þétt og langt, og þar má finna kirsuber, sólber, vanillu, leður, tóbak, súkkulaði og negul. 94 stig. Mjög góð kaup (5.986 kr). Fer mjög vel með góðri nautasteik, villibráð eða grilluðu lambi.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (95 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Matsu El Viejo 2021
Mjög góð kaup
Matsu El Viejo 2021 fer mjög vel með góðri nautasteik, villibráð eða grilluðu lambi.
5
94 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook