Parada de Atauta Ribero del Duero 2020

Síðasta vín sem ég fjallaði um kom frá vínhúsi Dominio de Atauta í Ribera del Duoero. Vínhúsið hefur til umráða mjög gamlar vínekrur þar sem sums staðar má finna vínvið frá því fyrir daga Phylloxera rótarlúsarinnar illræmdu. Framleiðsla Dominio de Atauta er ekki umfangsmikil – um 60-120 þúsund flöskur á ári. Þar af eru 3 rauðvín sem eru einnar-ekru vín og eru gerð í 750-1500 flöskum árlega.

Vínið sem hér er fjallað um má kannski kalla „litla“ vínið frá Dominio de Atauta, en þetta vín er samt ekki lítið á neinn hátt – þvert á móti. Líkt og önnur rauðvín frá Dominio de Atauta þá er þetta hreint Tinto Fino (Tempranillo= Þrúgurnar sem fóru í þetta vín koma af 90+ ára vínvið (eldri vínviður gefur færri en betri þrúgur). Að lokinni gerjun (í steyptum tönkum og stáltönkum) var vínið sett á tunnur úr franskri eik (20% nýjar tunnur) þar sem það fékk að hvíla í 13 mánuði áður en það var sett á flöskur í ágúst 2022. Alls voru gerðar 52.823 flöskur af þessum árgangi, og einnig 900 magnum-flöskur.

Parada de Atauta Ribero del Duero 2020 hefur djúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu er þéttur ilmur af rauðum kirsuberjum, eik, vanillu, rifsberjum, sólberjum, plómum, kakó, leðri og kanil. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð vel og þar má greina kirsuber, eik, vanillu, kakó, sólber, plómur og leður. 92 stig. Frábær kaup (4.390 kr). Fer vel með grilluðu lambi, nautasteik, villibráð og hörðum ostum.

Tim Atkin gefur þessu víni 92 stig, Robert Parker gefur því 93 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (272 umsagnir þegar þetta er skrifað). James Suckling gefur þessu víni 92 stig og Wine Spectator gefur því 89 stig.

Parada de Atauta Ribero del Duero 2020
Frábær kaup!
Parada de Atauta Ribero del Duero 2020 fer mjög vel með grilluðu lambi, nautasteik, villibráð og hörðum ostum.
4.5
92 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook