Jean-Luc Baldès Clos Triguedina Au Coin du Bois 2013

Malbec á sér langa og merka sögu í franskri víngerð. Hún var lengi ræktuð í Bordeaux og var þar ein af undirstöðuþrúgunum í rauðvínum héraðsins. Hlutverk Malbec var að gefa Bordeaux-rauðvínum lit, ávöxt og tannín. Vínbændur í Bordeaux notuðu líka rauðvín frá Cahors í Frakklandi til að blanda í sín vín. Í erfiðu árfari voru gæði uppskerunnar ekki alltaf sem skyldi, og þá var Malbec frá Cahors blandað út í vínin. Vínbændur í Cahors máttu lengi vel ekki selja sín vín fyrr en eftir að vínbændur í Bordeaux voru búnir að selja sín!

Veturinn 1956 gerði miklar frosthörkur í Frakklandi. Malbec þolir illa frost og vínviðurinn drapst á flestum vínekrum í Bordeaux og Cahors. Vínbændur í Cahors gróðursettu aftur Malbec, en flestir vínbændur í Bordeaux völdu Merlot í stað Malbec, enda auðveldari í ræktun og þolir frostið betur. Þó má enn finna Malec í Saint-Émilion, Blaye og Entre-Deux-Mers, en þó í frekar litlu magni (yfirleitt ekki nema í mesta lagi 2-3%, notað til að gefa vínunum lit).

Malbec nýtur sín hins vegar alveg sérstaklega vel í Argentínu og er orðin flaggskip Argentínskrar víngerðar. Sumrin í Mendoza eru hlý og þurr og það hendar Malbec vel. Hún þrífst meira að segja í Salta-héraði, þar sem efstu vínekrur eru í rúmlega 3.000 metra hæð yfir sjávarmáli.

Íslendingar virðast vera mjög hrifnir af Malbec, einkum þeim argentínska. Í fyrra seldur rúmlega 42.000 flöskur af argentínskum Malbec í Vínbúðunum (rúmlega 3% af seldum 750 ml rauðvínsflöskum í Vínbúðunum í fyrra). 

Vín dagsins

Í fyrra skrifaði ég stuttan pistil um Cahors-hérað í Frakklandi. Þegar sá pistill var birtur var ekki hægt að nálgast nein vín frá Cahors í Vínbúðunum, og því miður hefur það ekki breyst. Þegar ég sat WSET-3 námskeiðið í fyrra var Malbec frá Cahors á listanum yfir vín sem æskilegt var að smakka. Sem betur fer átti Óli félagi minn, sem sat námskeiðið með mér, nokkrar flöskur frá Jean-Luc Baldès og við opnuðum eina slíka.

Vínhús Jean-Luc Baldès er fjölskyldufyrirtæki sem hóf starfsemi árið 1830. Vínekrurnar ná yfir 70 hektara og þar er Malbec ráðandi, en einnig má þar finna Merlot, Tannat, Chardonnay, Viognier og Chenin Blanc. Vínið sem hér er fjallað um er hluti af þrennu, þar sem vínin koma af mismunandi hlutum Clos Triguedina-vínekrunnar, sem er stolt fjölskyldunnar. Þessi svæði hafa mismunandi jarðveg og þar sem um er að ræða sömu þrúgur, meðhöndlaðar á sama hátt, þá koma terroir-áhrifin vel fram í vínunum.

Jean-Luc Baldès Clos Triguedina Au Coin du Bois 2013 er hreint Malbec, sem að lokinni gerjun var 12 mánuði á tunnum úr franskri eik. Vínið hefur djúpan múrsteinsrauðan lit með fjólubláum tónum. Í nefinu finnur maður negul, sólber, brómber, lakkrís, kirsuber, plómur, svartan pipar, vanillu og eik. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, þroskuð tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér vel og lengi, og þar má greina sólber, kirsuber, plómur, kakó, eik og tóbak. 92 stig. Flott vín sem fer vel með grilluðu nauti, lambi og grænmeti, en einnig hörðum ostum.

Wine Enthusiast gefur þessu víni 93 stig.

Jean-Luc Baldès Clos Triguedina Au Coin du Bois 2013
Jean-Luc Baldès Clos Triguedina Au Coin du Bois 2013 fer vel með grilluðu nauti, lambi og grænmeti, en einnig hörðum ostum.
4.5
92 stig

Vinir á Facebook