Marqués de Murrieta Castillo Ygay Gran Reserva Especial 2011

Vínhús Marques de Murrieta er eitt af elstu og virtustu vínhúsum Rioja og hefur frá fyrstu tíð verið leiðandi í víngerð í Rioja. Vínhúsið framleiðir 7 vín í Rioja – 4 rauð, 2 hvít og eitt rósavín. Auk þess á Murrieta vínekrur í Ríaz Baixas þaðan sem koma 2 hvítvín. Vínhúsið hefur lengi verið þekkt fyrir vönduð vín og flaggskip þeirra – Castillo Ygay Gran Reserva Especial – skaust upp á stjörnuhimininn fyrir 3 árum þegar það var valið vín ársins hjá Wine Spectator.

Þetta flaggskip Murrieta er aðeins gert í góðum árgöngum. Þannig var þetta vín ekki gert úr árgöngunum 2002, 2003, 2006 og 2008 því þeir þóttu ekki nógu góðir. Vínið var svo gert úr árgöngunum 2009-2012 en næsti árgangur eftir það er 2016. Nú er hægt að nálgast 2011 árganginn í Vínbúðunum, vonandi fáum við einnig að kynnast 2012-árgangnum, en 2016 kemur ekki svo í sölu fyrr en eftir 3-4 ár. 2010-árgangurinn var eins og áður segir valið vín ársins 2021 hjá Wine Spectator.

Murrieta gerir einnig hvítvín undir sama nafni og þar eru kröfurnar enn meiri en til rauðvínsins. Hvítvínið er geymt á tunnum í rúm 20 ár og fær svo tæpan áratug á flösku áður en það fer frá vínhúsinu. Síðasti árgangur af því var 1986 og næst er það 1998 árgangurinn sem er væntanlegur eftir nokkur ár…

Vín dagsins

Þrúgurnar í þetta vín (84% Tempranillo og 16% Mazuelo/Carignan) koma af vínekru sem kallast La Planta, en hún er í 485 metra hæð yfir sjávarmáli, sú hæsta af vínekrum Murrieta. Vínið var gerjað í stáltönkum en var síðan sett á tunnur – Tempranillo í amerískar eikartunnur og Mazuelo í franskar eikartunnur. Þar fékk vínið að hvíla í 28 mánuði áður en það var blandað. Eftir blöndun var vínið geymt í steyptum tönkum í 13 mánuði áður en það var sett á flöskur vorið 2016. Vínið hefur því verið á flöskum í tæplega 8 ár! Alls voru gerðar 131.668 flöskur af þessu víni.

Marqués de Murrieta Castillo Ygay Gran Reserva Especial 2011 hefur djúpan rúbínrauðan lit og virðist óvenju unglegt þrátt fyrir að vera á 13. ári. Í nefinu er þéttur ilmur af kirsuberjum, fjólum, vanillu, leðri, tóbaki, plómum, súkkulaði, pipar, kryddjurtum, kaffi og smá reyk. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og þétt en silkimjúk tannín. Eftirbragðið er í senn mjúkt og öflugt og heldur sér mjög lengi. 98 stig – frábært vín! Féll eins og flís við rass með grilluðu ribeye og færi eflaust vel með góðri villibráð, sem og íslenska lambinu. Vínið kostar litlar 25.960 krónur en þetta eru þrátt fyrir það líkega ein bestu kaupin í Vínbúðunum þegar dýru vínin eru annars vegar. Þetta vín á eftir að njóta sín vel næstu 10-15 árin.

Robert Parker gefur þessu víni 97 stig, James Suckling gefur því 98 stig, Wine Spectator gefur 94 stig, Decanter gefur 97 stig og Wine Enthusiast gefur 97 stig. Notendur Vivino gefa því 4,6 stjörnur (1.389 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Marqués de Murrieta Castillo Ygay Gran Reserva Especial 2011
Frábært vín
Marqués de Murrieta Castillo Ygay Gran Reserva Especial 2011 er stórkostlegt vín sem steinliggur með nauti, lambi og villibráð.
5
98 stig

Vinir á Facebook