Beyond Big! The One Cab Sauvignon Vat.08 2020

Taster Wine var stofnað í Danmörku árið 1946 til að flytja inn vín frá Ungverjalandi. Stofnandinn, Fritz Paustian, vissi að aðalvandamáli við innflutninginn væri að koma vínunum frá Ungverjalandi til Danmerkur. En Fritz var útsjónarsamur. Hann vissi af fyrirhugaðri ferð Rauða krossins með hjálparsendingu til Ungverjalands. Nítján vörubílar óku fullhlaðnir til Ungverjalands, en í stað þess að láta þá keyra tóma til baka fékk Fritz leyfi til að láta þá flytja vínsendingu heim til Danmerkur. Danir slógust um þessi vín og sendingin seldist fljótt upp. Ekki kemur fram hvort Rauði krossinn hafi flutt meira vín frá Ungverjalandi til Danmerkur, en hins vegar er ljóst að þessi sending varð upphafið að velgengni Taster Wine, sem í dag er eitt stærsta vínfyrirtækið í einkaeigu í Danmörku.

Á Norðurlöndunum – sérstaklega í Svíþjóð – er nokkuð algengt að sjá vín sem eru „búin til“ eingöngu fyrir norræna markaðinn. Í Svíþjóð hafa þekktir einstaklingar, einkum „sjónvarpskokkar“ látið búa til vín fyrir sig sem ætla má að höfði vel til sænska neytenda. Taster Wine er eitt þeirra fyrirtækja sem kaupir tilbúin vín af framleiðendum og markaðssetur sem sitt. Þeir bjóða líka upp átöppun fyrir þá sem hafa áhuga á að selja vín undir eigin merkjum.

Ekki kemur fram á heimasíðu Taster Wine hvort Beyond Big! sé þeirra eigið vörumerki, en það er litlar upplýsingar að finna um þetta merki á netinu. Þó kemur fram að þessi vín, sem koma öll frá Ameríku, séu óður til bandarískra frumkvöðla sem byggðu upp þá Ameríku sem við þekkjum í dag. Mottóið er THINK – DREAM – MAKE IT – LIVE BIG! – og í þessari vörulínu er að finna Think Big! Zinfandel, Make it Big! Pinot Noir, Dream Big! Chardonnay (fæst ekki hér) og Live Big! rósavín. Vínin eru öll gerð í Kaliforníu en flutt til Danmerkur í stórum tönkum, þar sem þeim er tappað á flöskur eða í kassa („beljur“).

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr Cabernet Sauvignon sem koma af vínekrum í Paso Robles, Monterey og Lake County. Þar sem þær koma af mismunandi svæðum flokkast vínið einfaldlega sem Kaliforníuvín. Að lokinni gerjun var vínið sett á tunnur úr franskri og amerískri eik þar sem það fékk að þroskast í 9 mánuði. Tunnurnar hafa allar verið notaðar áður og þannig er eikarbragðinu haldið í skefjum.

Beyond Big! The One Cab Sauvignon Vat.08 2020 hefur ríflega miðlungsdjúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu er þægilegur ilmur af svörtum plómum, sólberjum, svörtum pipar, kakó, kókos, eik og mildri vanillu. Vínið er þurrt, með góða sýru, ríflega miðlungs tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér ágætlega. 88 stig. 4.690 kr í Vínbúðunum. Fer vel með nauti, léttari villibráð, grilluðu kjöti, hörðum ostum og súkkulaði. Sýnishorn frá innflytjanda.

Ég fann engar aðrar umsagnir um þetta vín.

Beyond Big! The One Cab Sauvignon Vat.08 2020
Beyond Big! The One Cab Sauvignon Vat.08 2020 fer vel með nauti, léttari villibráð, grilluðu kjöti, hörðum ostum og súkkulaði.
4
88 stig

Vinir á Facebook