Marques de Murrieta Castillo Ygay Rioja Gran Reserva Especial 2010

Undanfarin 25 ár eða svo sem ég hef ég fylgst með vínpressunni hefur það verið ofarlega á óskalista hvers árs að fá að smakka vín ársins. Þar á ég við vínið sem tímaritið Wine Spectator tilnefnir sem vín ársins ár hvert. Í einhver skipti hef ég náð að smakka þessi eðalvín sem hlotið hafa þessa heiðursnafnbót. Stundum hefur það verið rétt vín og árgangur, stundum rétt vín en rangur árgangur. Hins vegnar hef ég aldrei fyrr smakkað þessi vín á því ári sem þau eru útnefnd sem vín ársins.

Þannig hef ég upplifað ánægjuna af að prófa Chateau St. Jean Cabernet Sauvignon Sonoma County Cinq Cépages 1996 (vín ársins hjá WS 1999), Casa Lapostolle Clos Apalta Colchagua Valley 2005 (vín ársins 2008), Tignanello 1997 (vín ársins 2000) og fleiri vín sem hafa hlotið hafa þessa nafnbót. Sum eru innan seilingar og bíða réttrar stundar.

Það var því einstakt ánægjuefni að sjá að vín ársins hjá Wine Specatator árið 2020 er frá Marques de Murrieta og að hægt er að nálgast vín frá þeim hérlendis. Reyndar er nú aðeins hægt að fá Marques de Murrieta Rerserva 2016 í vínbúðunum. Það er samt ekkert „lítið“ vín því það fær 94 punkta hjá Robert Parker og kostar rétt rúmar 4.000 krónur í vínbúðunum). Ég á eftir að prófa þennan árgang, en 2015-árgangurinn fékk 92 stig hjá mér og 2014 fékk 91 stig.

Ég varð því auðvitað himinlifandi þegar ég komst yfir eintak af víni ársins, aðeins rúmum mánuði eftir útnefninguna!

Vín dagsins

Vínhús Marques de Murrieta er eitt af elstu og virtustu vínhúsum Rioja og hefur frá fyrstu tíð verið leiðandi í víngerð í Rioja. Vínhúsið framleiðir 7 vín í Rioja – 4 rauð, 2 hvít og eitt rósavín. Auk þess á Murrieta vínekrur í Ríaz Baixas þaðan sem koma 2 hvítvín.

Annað hvítvínið frá Murrieta og samnefnari þess víns sem fjallað er um hér í dag – Castillo Ygay Rioja Blanco Gran Reserva Especial – var fyrstra spænska hvítvínið til að fá 100 stig hjá Robert Parker. Það vín er látið liggja í rúm 20 ár á tunnum og rúm 5 ár í steintönkum áður en því er tappað á flösku. Nýjasti árgangurinn af þessu víni sem hægt er að nálgast er frá árinu 1986. Þessi vín eldast hins vegar alveg ótrúlega lengi. Á vef Robert Parker má finna umsagnir um 1919 og 1932-árgangana sem smakkaðir voru árið 2016 og voru bæði vínin þá í fantaformi, annað þeirra tæplega 100 ára gamal! Áhugasamir geta reiknað með að þurfa út rúmum 70 þúsundum fyrir flöskuna af 1986-árgangnum ef maður á annað borð getur nálgast eina slíka.

Vín dagsins, sem er vín ársins 2020 hjá Wine Spectator, er gert úr þrúgunum Tempranillo (85%) og Mazuelo (15%). Að lokinni gerjun fékk það að hvíla í 2 ár á tunnum úr franskri og amerískri eik. Vínið er aðeins gert í bestu árgöngum, og þannig var það ekki gert árin 2002, 2003, 2006 og 2008 því þeir árgangar þóttu ekki nógu góðir. Vínið hefur nær alltaf hlotið einróma lof gagnrýnenda og einkunnir í hæsta flokki.

Marques de Murrieta Castillo Ygay Rioja Gran Reserva Especial 2010 er djúp-kirsuberjarautt á lit, unglegt þrátt fyrir 10 ára aldur og með góða dýpt. Í nefinu finnur maður nýtt leður, sólber, plómur, vanillu, jarðarber, pipar og kirsuber. Í munni eru þétt og góð tannín, góð sýra og þéttur ávöxtur. Leður, sólber, hindber, plómur, leður og tóbak í löngu og óður eftirbragðingu. Frábært vín sem steinliggur með góðri nautasteik eða villibráð. Stórkostlegt! 97 punktar.

Robert Parker gefur þessu víni 97 punkta. Wine Spectator gefur víninu 96 punkta og titilinn vín ársins 2020. James Suckling gefur víninu 99 stig. Decanter gefur 97 stig. Notendur Vivino gefa 4,5 stjörnur (678 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Marques de Murrieta Castillo Ygay Rioja Gran Reserva Especial 2010
Marques de Murrieta Castillo Ygay Rioja Gran Reserva Especial 2010 er stórkostlegt vín sem steinliggur með góðri nautasteik eða villibráð.
5
97 stig

Vinir á Facebook