Markus Molitor Brauneberger Klostergarten Pinot Noir** 2010

Sætu Riesling-hvítvínin frá Markus Molitor þykja með allra bestu hvítvínum Þýskalands. Molitor á fjölda vínekra í Mosel-dalnum og sendir á hverju ári frá sér tugi vína, allt frá „einföldum“ þurrum Kabinett-vínum yfir í dísæt Auslese, Beerenauslese og Trockenbeerenauslese. Það er því dálítill frumskógur að kynna sér vínin frá Molitor. Til einföldunar notast hann því við ákveðið litakerfi á málmþynnuna sem er á flöskunum. Þurru vínin hafa hvítan topp, millisætu vínin hafa grænan topp og sætvínin hafa gylltan topp. Þá notar hann einnig annað gæðakerfi þar sem sum vínin eru stjörnumerkt (1-3 stjörnur) – því fleiri stjörnur, því betra vín.

Ég hef lengi verið aðdáandi vínanna frá Molitor, allt frá því ég smakkaði fyrst Wehlener Sonnenuhr Riesling Auslese** 2005 árið 2007 (gulltappi). Það liðu þó mörg ár áður en ég smakkaði annað vín frá Molitor. Fyrir 2 árum eignaðist ég nokkrar flöskur af Zeltinger Himmelreich Riesling Auslese** (Green Cap) 2016 sem vakti líka gríðarlega lukku. Ásamt þessum dásamlegu hvítvínsflöskum komst ég líka yfir eina rauðvínsflösku frá Molitor.

Vín dagsins

Þó svo að aðalsmerki Markus Molitors séu hvítvín þá eru rauðvínin hans ekkert af verri endanum heldur. Mér hefur þó ekki tekist að finna miklar upplýsingar um sjálfa víngerðina en sá vínviðurinn mun allur vera ættaður frá Chambolle-Musigny í Bourgogne. Þetta tiltekna vín kemur af vínekrunni Klostergarten í nágrenni þorpsins Brauneberg í Moseldalnum.

Markus Molitor Brauneberger Klostergarten Pinot Noir** 2010 er ljósmúrsteinsrautt á lit, með góða dýpt og ágætan þroska. Í nefinu finnur maður hindber, jarðarber, pipar, milda eik og vott af karamellu. Í munni eru silkimjúk tannin, góð sýra og flottur ávöxtur. Hindber, jarðarber, te og kóríander í löngu og fáguðu eftirbragðinu. Frábært vín. 94 stig. Fer vel með lambi, nauti og villibráð.

Þetta vín hefur að jafnaði fengið um 93-94 punkta hjá Robert Parker og notendur Vivino gefa 4.1 stjörnu (reyndar aðeins 17 umsagnir í heildina þegar þetta er skrifað).

Markus Molitor Brauneberger Klostergarten Pinot Noir** 2010
5
94 stig

Vinir á Facebook