Markus Molitor Zeltinger Himmelreich Riesling Auslese** (Green Cap) 2016

Skömmu fyrir jól birti Þorri vinur minn Hringsson víndóm á Víngarðinum um Tokaj-vín og undraðist um leið hversu illa gengur að fá Íslendinga til að prófa alvöru sætvín. Gefum Þorra orðið:

Miðað við hversu mikið af sætkenndum sull-vínum Íslendingar neyta á hverju ári er merkilegt að það skuli varla vera hægt að selja þeim alvöru og góð sætvín. Mikið hefur verið reynt en sölutölurnar benda hreint ekki til þess að það sé neinn sérstakur áhugi á þeim. Fyrir mitt leiti botna ég ekkert í þessu því bestu sætvín þessa heims eru sennilega einhver vanmetnustu og ódýrustu gæðavín sem hægt er að versla. Og sé haft í huga hversu lítil uppskeran er, má makalaust telja hversu vel prísuð þau eru.

Þorri Hringsson, Víngarðurinn 22.12.2020

Ég get ekki annað en tekið undir hvert einasta orð í þessari málsgrein. Eins og sum sæt vín geta verið óttalegt sull þá geta alvöru sætvín verið stórkostleg (takið eftir að ég geri greinarmun á sætum vínum og sætvínum). Fyrir rúmum áratug, þegar ég var búsettur í Uppsölum, kynntist ég víni frá hinu þýska Markus Molitor, sem framleiðir guðdómleg sætvín úr Riesling. Áhugasamir geta lesið færslur mínar frá 2007, 2009 og 2013. Vínið sem ég kynntist þá fékk 97 stig hjá Wine Spectator, sem mér þótti nokkuð gott. Síðar hef ég áttað mig á því að sennilega er meðaleinkunn vína frá Molitor hærri en 97 stig, a.m.k. hjá Robert Parker, þar sem sum vínin fá 100 stig ár eftir ár.

Síðasta vetur pantaði ég í fyrsta skipti frá erlendri netverslun þegar ég pantaði nokkrar flöskur af vínum frá Markus Molitor, þar á meðal vín dagsins. Það leið ekki á löngu áður en ég pantaði aðeins meira og mig langar eiginlega að panta mér ennþá meira, því þessi vín geta geymst i áratugi.

Vín dagsins

Auslese-vínin frá Markus Molitor eru bæði merkt með stjörnum og mismunandi lit á málmþynnunni yfir tappanum. Vín með hvítum tappa hafa minnstan sykur og eru stundum þurr. Græni tappinn gefur til kynna miðlungssætu en gylltur tappi táknar alvöru sæt og ávaxtarík vín. Áfengismagnið er yfirleitt frekar lágt í þessum vínum eða að jafnaði um 7-8%.

Markus Molitor Zeltinger Himmelreich Riesling Auslese** (Green Cap) 2016 er strágult í glasi, með fallega tauma og dásamlega angan af hunangi, sítrónum, perum, ferskjum og mildum steinefnum. Í munni gælir vínið við bragðlaukana með sítrónum, hunangi og apríkósum. Stórkostlegt vín sem mér finnst best að drekka eitt og sér, en fer vel með eplastrüdel, jarðarberjum og suðrænum ávöxtum. 96 stig.

Robert Parker gefur þessu víni 97 stig.

Markus Molitor Zeltinger Himmelreich Riesling Auslese** (Green Cap) 2016
Markus Molitor Zeltinger Himmelreich Riesling Auslese** 2016 er stórkostlegt vín sem gælir við bragðlaukana.
5
96 stig

Vinir á Facebook