Kvöldið góða

Í gær buðum við Evu (deildarstjóranum hennar Guðrúnar) og manninum hennar í mat.  Líkt og venja er þegar við bjóðum svíum í mat (a.m.k. þegar þeir koma í fyrsta skipti) þá buðum við upp á íslenskt lambakjöt.  Á undan bauð ég upp á s.k. „minisnäckor“ (litlir smjördeigssnúðar með kalkúnakjötsfyllingu) og með því drukkum við Montes Sauvignon Blanc 2007 frá Chile.  Það er frekar ljóst á lit, góður ilmur af greipaldin og ananas ásamt blómakeim.  Frísklegt í munni þar sem sítruskeimurinn kemur betur fram.  Góð kaup!
Lambalærið var marinerað með hvítlauk, timjan og rósmarín (sjá uppskrift í Landsliðsbók Hagkaupa), borið fram með „fondantes“ kartöflum, gulrótarmauki, salati og villisveppasósu.  Mjög góð máltíð og með því drukkum við Seghesio Sonoma County Zinfandel 2007.  Það er vín sem ég hef beðið eftir að komast yfir og biðin var þess virði!  Dökkt og fallegt vín með frábærum ilmi af sólberjum og plómum, kryddað með ögn af fjólum.  Kröftugt vín í munni, tannín og sýra með gott jafnvægi, langt og gott eftirbragð – frábært!  Kostar ekki nema um 165 SEK.  Vínið fékk 93 punkta hjá Wine Spectator og lenti í 10. sæti á topp-100 listanum þeirra.
Í eftirrétt fengum við okkur Tiramisu, kaffi og koníak (Renault carte noir extra eins og vera ber).  Síðar um kvöldið tók ég svo upp eina Markus Molitor Wehlener Sonnenuhr Riesling Auslese** 2005 – stórkostlegt hvítvín sem fékk 97 punkta á sínum tíma.
Saman tekið var þetta mjög vel heppnað kvöld sem erfitt verður að toppa, a.m.k. á næstunni.

Vinir á Facebook