Domaines Ott By.Ott Rosé 2021

Domaines Ott er vínhús sem staðsett er í Provence í Frakklandi og rekur sögu sína aftur til ársins 1896. Marcel Ott var vínkaupmaður frá Alsace sem kom til Provence árið 1896 og hóf að kaupa upp vínekrur sem þá voru frekar ódýrar, enda svæðið enn í áfalli eftir Phylloxera faraldurinn. Síðar átti Ott eftir að kaupa fleiri vínhús í Provence. Château de Selle var keypt 1912, Clos Mireille árið 1936, og loks Château Romassan árið 1956.

Marcel Ott hófst strax handa við að endurnýja vínviðinn á vínekrunum og gróðursetti hefðbundnar Miðjarðarhafsþrúgur ágræddar á ameríska rót (ameríska rótin er ónæm fyrir Phylloxera rótarlúsinni). Ott lagði líka strax áherslu á gerð gæðavína og vínhús Domaines Ott hefur alla tíð staðið vörð um gæðin. Það sést líka á verðinu – vínin frá Ott þykja í dýrari kantinum þegar rósavín eru annars vegar, en þau eru líka í öðrum gæðaflokki en flest önnur rósavín. Til marks um áhersluna á gæðin ákvað Ott að endurnýja allan vínviðinn á vínekrum Château Romassan þegar vínhúsið var keypt. Það liðu svo 25 ár áður en þrúgurnar þóttu nógu góðar til að gefa af sér vín sem myndu flokkast sem Bandol AOC (fram að því voru vínin gerð sem Côtes de Provence AOC). Öll vín frá Domaines Ott koma í flöskum sem hafa nokkuð óvenjulega lögun, sem á að vera táknræn fyrir landslag Provence-héraðs.

Árið 2004 keypti Louis Roederer ráðandi hlut í Domaines Ott, en fyrirtækinu er þó enn stjórnað af frændunum Christian og Jean-François Ott.

Vín dagsins.

Vín dagsins er nýjasta línan í rósavínum Domaines Ott (Ott gerir líka rauðvín og hvítvín í sömu línu). Vínið kemur frá vínhúsinu Château de Selle en er kennt við Domaines Ott, líkt og öll vín Ott. Innan landareigar Château de Selle eru 14 hektarar af vínekrum á nokkuð fjölbreyttum jarðvegi – leir, kalk, möl og sandur. Vínið er blandað úr þrúgunum Grenache (60%), Cinsault (28%), Syrah (8%) og Mourvedre (4%).

Domaines Ott By.Ott Rosé 2021 er föl-laxableikt á lit. Í nefinu er miðlungsþéttur ilmur af rauðum eplum, sítrónum, rifsberjum, melónu, jarðarberjum, ferskjum, apríkósum og steinefnum. Í munni er ríflega miðlungs sýra, miðlungs fylling og gott jafnvægi. Í eftirbragðinu eru rauð epli, sítrónur, rifsber, melónur, kúlutyggjó, ferskjur og apríkósur, ásamt smá seltu. 91 stig. Mjög góð kaup (3.590 kr hjá Affblitzz, 3.999 kr í Vínbúðunum). Fer vel með fuglakjöti, sushi, indverskum mat, skelfiski, fiskréttum og salati, eða bara eitt og sér.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (1123 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur þessu víni 88 stig og Falstaff gefur því 90 stig.

Domaines Ott By.Ott Rosé 2021
Góð kaup
Fer vel með fuglakjöti, sushi, indverskum mat, skelfiski, fiskréttum og salati, eða bara eitt og sér
4.5
91 stig

Vinir á Facebook