Beringer Private Reserve Cabernet Sauvignon 2015

Á fyrstu árum vínsmökkunarferils míns féllu bragðlaukarnir fljótt fyrir Cabernet Sauvignon, einkum frá Beringer og Penfolds. Það skýrist kannski m.a. af því að þá var annað úrval í vínbúðunum og verðið á þessum vínum var viðráðanlegt (a.m.k. eftir að skólagöngunni lauk). Vín frá þessum framleiðendum hafa alltaf verið í ákveðnu uppáhaldi hjá mér – það sést líka á því að þegar leitað er í þessum 1200 færslum sem eru á síðunni þá kemur Beringer fyrir í 28 og Penfolds í 36! Það hefur reyndar lítið farið fyrir þessum vínum hjá mér undanfarin ár. Vínin sem ég var að drekka á þessum tíma eru líka flest horfin úr hillum vínbúðanna.

Skömmu fyrir COVID fór ég til San Francisco og var þá búinn að ákveða að ég ætlaði að ná mér í 1-2 stk af góðum amerískum Cabernet. Helst Beringer Private Reserve. Það vín hefur nefnilega haft sérstakan stall hjá mér og í miklu uppáhaldi. Ég hef áður fjallað um 1995 (reyndar mjög snubbótt umfjöllun) og 2004 árgangana þó ég hafi prófað þá fleiri, en það voru orðin a.m.k. 10 ár síðan ég smakkaði þetta vín síðast.

Ég fann þessa líka fínu vínbúð skammt frá ráðstefnuhöllinni – að flatarmáli hefur búðin verið um 50% stærri en meðal Bónusverslun. Útkoman úr þeirri heimsókn voru 2 stk Beringer Private Reserve Cabernet Sauvignon 2015 þó ég hefði gjarnan vilja taka miklu meira með heim…

Vín dagsins

Private Reserve-línan frá Beringer tilheyrir flaggskipum fyrirtækisins og þessi vín, einkum Chardonnay, hefur margoft ratað inn á topplista Wines Spectator yfir bestu vín ársins. Cabernet Sauvignon 1986 var vín ársins árið 1990 og 1994-árgangurinn af Chardonnay var vín ársins 1996.

Þetta er vín er að mestu leyti gert úr Cabernet Sauvignon (97%) en örlitlu Cabernet Franc (2%) og Petite Verdot (1%) er þó bætt út í. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja 20 mánuði á tunnum úr franskri eik (þar af eru 85% nýjar tunnur).

Beringer Private Reserve Cabernet Sauvignon 1995

Beringer Private Reserve Cabernet Sauvignon 2015 er dökk-kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og er ennþá ungt að sjá. Í nefinu eru plómur, sólber, leður, vanilla, anís, súkkulaði og krydd. í munni eru massíf tannín, góð sýra, flottur ávöxtur og mikil fylling. Sólber, kirsuber, leður, lakkrís, kakó og tóbak í þéttu og löngu eftirbragðinu. Fór einstaklega vel með nautasteikinni og nýtur sín eflaust jafn vel með villibráð á borð við krónhjört og hreindýr. 96 stig. Stórkostlegt vín! Ég umhellti því rúmri klukkustund áður en það var drukkið og eflaust hefði það haft gott af annarri klukkustund til viðbótar.

Rober Parker gefur þessu víni 95+ í einkunn. Wine Spectator gefur 92 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4.6 stjörnur (597 umsagnir þegar þetta er skrifað). James Suckling 99 gefur þessu víni 99 stig.

Beringer Private Reserve Cabernet Sauvignon 2015
Beringer Private Reserve Cabernet Sauvignon 2015 er stórkostlegt vín sem smellpassar með nauti og villibráð!
5
96 stigór einstaklega vel með nautasteikinni og nýtur sín eflaust jafn vel með villibráð á borð við krónhjört og hreindýr. 96 stig. Stórkostlegt vín!

Vinir á Facebook