Beringer Founders’ Estate Chardonnay 2016

Fyrst ég er á annað borð byrjaður að tala um vínin frá Beringer þá er best að halda því áfram! Beringer framleiðir ekki bara stórkostlega lúxusvín á borð við Private Reserve-línuna. Ein af grunnlínunum er Founders’ Estate-línan. Í þessari línu eru 3 hvítvín og 4 rauðvín. Hvítvínin eru öll einnar þrúgu vín – Chardonnay, Pinot Grigio og Sauvignon Blanc. Rauðvínin eru einnig (nánast) einnar þrúgu vínin Cabernet Sauvignon, Merlot og Pinot Noir, en einnig er í línunni Dark Red Blend, sem er gert úr þrúgunum Cabernet Sauvignon, Merlot, Zinfandel, Syrah og Petite Sirah.

Þrjú af vínunum í Founders’ Estate-línunni eru fáanleg í vínbúðum hérlendis – hvítvínin Sauvignon Blanc og Chardonnay, og rauðvínið Cabernet Sauvignon.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr hreinu Chardonnay, sem er látið liggja í 4 mánuði á notuðum tunnum úr franskri eik áður en það er sett á flöskur.

Beringer Founders’ Estate Chardonnay 2016 er ljóssítrónugult á lit, með byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður perur, epli og örlítið af suðrænum ávöxtum. Í munni er ágæt fylling með perum, eplum og örlitlum möndlum í eftirbragðinu. Fer ágætlega með fiski, ljósu fuglakjöti og risotto. 87 stig. Ágæt kaup (2.899 kr).

Notendur Vivino.com gefa þessu víni 3.7 stjörnur (1697 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Beringer Founders’ Estate Chardonnay 2016
Beringer Founder's Estate Chardonnay er létt og þægilegt hvítvín sem fer ágætlega með fiski, ljósu fuglakjöti og risotto.
3.5
87 stig

Vinir á Facebook