Isole e Olena Cepparello 2016

Vínhús Isole e Olena hefur verið traustur framleiðandi gæðavína undanfarna áratugi. Þó að vínhúsið hafi formlega orðið til árið 1950 þegar De Marchi-fjölskyldan keypti vínhús Isole og Olena, þá nær saga Isole og Olena miklu lengra, líklega margar aldir. Elstu heimildir um þorpið Olena munu vera frá 12. öld. Það var þó Paolo De Marchi sem lyfti Isole e Olena upp á þann stall sem það er nú á, þ.e. eitt af bestu vínhúsum Toscana.

Í vínbúðunum er hægt að fá hefðbundið Chianti Classico (með betri Chianti Classico-vínum í vínbúðunum) og Chardonnay sem er alveg frábært. Flaggskipið Cepparello hefur svo lengi verið með betri vínum í vínbúðunum og líklega eitt það besta í sínum verðflokki. Ég hef áður fjallað um 1996 og 2015 árgangana en það hefur fyrirfarist hjá mér að fjalla um 2003 og 2006 sem ég hef reyndar vísað til í eldri færslum hér á síðunni.

Vín dagsins

Cepparello hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér, þó ég hafi smakkað allt of fáa árganga í gegnum tíðina. Hér er á ferðinni hreint Sangiovese sem að lokinni gerjun er látið þroskast á tunnum í 20 mánuði áður en það er sett á flöskur. Þriðjungur tunnanna eru nýjar tunnur sem eru flestar úr franskri eik (um 5% eru úr amerískri eik), þriðjungurinn eru ársgamlar tunnur og þriðjungurinn eru tveggja ára gamlar tunnur. Vínið fær svo að hvíla aðeins lengur í flöskunni áður en það er sett í sölu.

Isole e Olena Cepparello 2016 er kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og þa er smá þroski til staðar. Í nefinu finnur maður leður, plómur, pipar, negull, kirsuber og smá eik. Í munni eru góð tannín, fín sýra og flottur ávöxtur. Kirsuber, súkkulaði og eik í þéttu eftirbragðinu. Frábær kaup (7.990 kr). Fer vel með góðri steik (naut, lamb, villibráð) og ostum. 95 stig.

Þessi árgangur fær 97 punkta hjá Robert Parker, og Cepparello hefur bara einu sinni fengið minna en 90 punta hjá Robert Parker, oftast 94-97 punktar. Wine Spectator gefur þessu víni 93 stig. Þessi árgangur fær 4.3 stjörnur hjá notendum Vivino (364 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Isole e Olena Cepparello 2016
Isole e Olena Cepparello 2016 er frábært vín sem fer vel með góðri steik (naut, lamb, villibráð) og ostum. Ein bestu kaupin í Vínbúðunum!
5
95 stig

Vinir á Facebook