Marques de la Concordia Vendimia Seleccionada Para Guarda 2016

Vínhúsið Marques de la Concordia á sér nokkuð gamlar rætur sem þó eru ekki að öllu leyti tengdar víngerð. Vínhúsið og vínekrurnar eru staðsettar á landareign þar sem áður var ræktaður sykur, en sykurverksmiðjunni hefur verið breytt í víngerð og vínviður gróðursettur þar sem áður var sykurreyr (sykurframleiðsla hefur að mestu lagst af á Spáni). Starfsemin í Rioja er þó ekki dæmigerð á þeim slóðum, því á vínekrunum eru ekki bara ræktaðar Tempranillo-þrúgur. Þar vaxa líka Syrah og Cabernet Sauvignon, svo nokkur dæmi séu nefnd, en vín úr þeim þrúgum má víst ekki kenna við Rioja…

Vín dagsins

Heiti vínsins vísar til þess að hér er um að ræða sérvalinn árgang sem hentar vel til langrar geymslu og þetta vín er aðeins búið til í góðum árgöngum. Hér er á ferðinni blanda Tempranillo, Merlot, Syra og Cabernet Sauvignon, sem er látið liggja í 18 mánuði á nýjum, frönskum eikartunnum áður en það er svo sett á flöskur.

Marques de la Concordia Vendimia Seleccionada Para Guarda 2016 er kirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska og góða dýpt. Í nefinu finnur maður þéttan ilm af nýju leðri, pipar, lakkrís, tóbaki, negul og auðvitað frönsku eikinni. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Eik, tóbak, pipar, leður og súkkulaði í þéttu og góðu eftirbragðinu. Fer vel með góðri steik, spænskri skinku og margvíslegum tapas-réttum, ásamt góðum ostum. 95 stig. Frábært vín! Þarf að umhella a.m.k. góðri klukkustund fyrir neyslu svo það nái að opnast. Sérpöntun (6.998 kr).

Það fer lítið fyrir umsögnum um þetta vín. Meðaltal allra árganga á Vivino eru 4.2 stjörnur. 2016 fær 4.4 stjörnur en það bara 12 umsagnir þegar þetta er skrifað.

Marques de la Concordia Vendimia Seleccionada Para Guarda 2016
Frábært vín sem fer vel með góðri steik, spænskri skinku og margvíslegum tapas-réttum, ásamt góðum ostum.
5
95 stig

Vinir á Facebook