Catena Malbec 2017

Vínhús Catena hefur lengi verið mitt uppáhalds vínhús í Argentínu og vín dagsins margsinnis ratað inn á borð hjá mér. 2008 árgangurinn af Catena Malbec náði meira að segja að vera útnefnt vín ársins á Vínsíðunni árið 2011! Það er því ávallt gaman að prófa nýjan árgang af þessu ágæta víni. Vínhús Catena hefur lengi verið í fararbroddi víngerðar í Argentínu og verið brautryðjandi í gerð góðra Malbec-vína. Lykillinn að velgengni Malbec-vínanna þeirra er, að þeirra sögn, að meðhöndla þrúguna líkt og væri um Pinot Noir að ræða, en ekki eins og Cabernet Sauvignon, eins og argentískrir starfsbræður þeirra höfðu lengi gert.

Í vínbúðunum var til skamms tíma hægt að kaupa hið frábæra Catena Alta en það er því miður farið úr hillum vínbúðanna. Það er þó hægt að benda áhugasömum á vínin frá Alamos, sem er í eigu Catena-fjölskyldunnar, en þau vín hafa verið að gera góða hluti undanfarin ár.

Vín dagsins

Catena Zapata Malbec 2017 er kirsuberjarautt, ungt, með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður bláber, apótekaralakkrís, leður og milda eikartóna. Í munni eru góð tannín, fín sýra og góður ávöxtur. Bláber, leður og eik í góðu eftirbragðinu. 90 stig. Fer vel með rauðu kjöti, einkum ef það fer á grillið! Góð kaup (3.590 kr).

Robert Parker gefur 91 stig. Notendur Vivino gefa 4.1 stjörnu (13.228 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Catena Malbec 2017
Catena Malbec 2017 fer vel með rauðu kjöti, einkum ef það fer á grillið!
4.5
90 stig

Vinir á Facebook