Montecillo Rioja Crianza 2016

Það er vel kunnugt að vínframleiðendur eru flestir mjög íhaldssamir þegar kemur að flöskumiðanum, einkum eldri vínhús í Evrópu. Flöskumiðinn hefur þá yfirleitt verið óbreyttur í áratugi, með ákveðnum undantekningum þó – Mouton Rothschild hefur fengið þekkta listamenn til að hanna miðann á flaggskip sitt í áratugi. Andy Warhol, Picasso, Dalí og Karl bretaprins eru í hópi þeirra listamanna sem hafa hannað flöskumiðann fyrir þetta eðalvín. Svo er auðvitað vel þekkt að margir neytendur kaupa vín sem þeir þekkja og treysta, og svo eru þeir líka til sem velja vínið eingöngu út frá flottum flöskumiðanum…

Það voru því töluverð tíðindi í vínheiminum þegar vínhús Montecillo ákvað að gjörbreyta sínum flöskumiðum og gera á nútímalegri í útliti. Svörtu, bláu og rauðu miðarnir sem voru okkur vel kunnir eru nú horfnir. Í staðinn eru komnir hvítir, stílhreinir miðar með nafni vínsins. Málmþynnan yfir tappanum er hins vegar í sama lit og gamli flöskumiðinn (rautt á crianza, blátt á reserva og svart á gran reserva). Líklega er þessi breyting gerð til að höfða til yngri neytenda, en spænsk víngerð hefur einmitt verið að þróast í þá átt. Yngri neytendur vilja frekar vín sem eru tilbúin til neyslu frekar en að kaupa vín sem þarf að geyma í nokkur ár áður en þau eru drukkin

Vín dagsins

Vínhús Montecillo rekur sögu sína til ársins 1870. Vínhúsið var í eigu Navajas-fjölskyldunnar fram til árins 1973, er það var selt til Osbourne-fjölskyldunnar. Undir merkjum Montecillo eru framleiddar 5 vörulínur, og þau vín sem fást í hérlendum vínbúðum teljst til Classic-vörulínunnar, að frátöldu Edicion Limitada sem telst til Signature-línunnar. Vín dagsins er yngsta vínið í Classic-línunni, dæmigert Crianza frá Rioja. Mér sýnist að ég hafi síðast skrifað um þetta vín árið 2009 og því löngu orðið tímabært að endurnýja kynnin (þó vissulega hafi ég smakkað það í einhver skipti á þessum tíma). Vínið er gert úr þrúgnum Tempranillo (85%) og Garnacha (15%). Það er látið liggja í 18 mánuði á nýjum tunnum úr amerískri eik, og svo í 6 mánuði á flösku áður en það fer í sölu.

Montecillo Rioja Crianza 2016 er kirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska. Í nefinu eru kirsuber, rifsber, hindber, pipar, leður, tóbak og plómur. Í munni eru góð tannín, hófleg sýra og sæmilegur ávöxtur. Leður, rifsber, tóbak, eik, vanilla og ögn af kaffi í góðu eftirbragðinu. Fer vel með íslenska lambinu, svínakjöti og léttari tapasréttum. Góð kaup (2.199 kr). 87 stig.

Wine Spectator gefur þessu víni aðeins 82 stig. Notendur Vivino gefa 3.6 stjörnu (874 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Enthusiast gefur þessu víni 90 stig og setur það í fyrsta sæti bestu kaup ársins 2020!

Montecillo Rioja Crianza 2016
Montecillo Rioja Crianza 2016 fer vel með íslenska lambinu, svínakjöti og léttari tapasréttum
4
87 stig

Vinir á Facebook