Bestu kaup ársins 2020?

Nú styttist í að öll helstu víntímarit og vínskríbentar fari að gefa út sína árlegu lista yfir bestu vín ársins. Wine Spectator hefur venjulega komið með sinn lista um miðjan nóvember, Decanter og önnur tímarit fljótlega eftir það. Wine Enthusiast hefur gert betur og komið með 2-3 lista á ári – ekki bara bestu vínin heldur líka bestu kaupin og bestu „geymslukaupin“ (e. cellar selection). Nú fyrir skömmu komu þessir tveir listar fyrir árið 2020 og það er ánægjulegt að sjá að á þessum lista eru nokkur vín sem fáanleg eru í vínbúðunum, þar á meðal tvö vínin í fyrstu 2 sætunum.

Bestu kaupin að mati Wine Enthusiast

Í fyrsta sæti er Montecillo Crianza 2016, góðkunningi íslenskra vínáhugamanna til margra ára, sem fær 90 stig. Í öðru sæti er Dark Horse Pinot Grigio 2019, sem einnig fær 90 stig. Sex önnur vín á listanum eru einnig fáanleg í hillum vínbúðanna. Eftirfarandi vín fást í vínbúðunum:

1. Montecillo Crianza 2016 (90 stig)
2. Dark Horse Pinot Grigio 2019 (90 stig)
43. Lopez de Haro Crianza 2017 (90 stig)
45. Kendall Jackson Vintner’s Reserve Sauvignon Blanc 2019 (90 stig)
68. Yellow Tail Pinot Grigio 2019 (87 stig)
75. Mezzacorona Pinot Grigio 2019 (88 stig)
88. Umani Ronchi Podere Montepulciano d’Abruzzo 2018 (88 stig)
100. Baron de Ley Hvítt 2019 (87 stig)

Bestu geymslukaupin

Á lista Wine Enthusiast yfir bestu geymslukaupin (e. Cellar Selection) eru nokkur sem íslenskum vínáhugamönnum ættu að vera kunnug. Sum þeirra eru til í vínbúðunum (kannski ekki alltaf réttur árgangur), og sum eru frá framleiðendum sem eiga fulltrúa hérlendis og önnur vín frá þeim fáanleg í vínbúðunum. Með góðum vilja væri jafnvel hægt að sérpanta eitthvað af þessum vínum.

1. Tignanello 2016 (99 stig) – hefur lengi verið til í Fríhöfninni og líklega hægt að sérpanta.
6. Don Melchor 2017 (95 stig) – fæst í vínbúðunum, en reyndar annar árgangur í hillunum.
8. Muga Prado Eneo 2011 (96 stig) – Muga er flestum kunnugt, og Prado Eneo er kannski hægt að sérpanta.
12. Ciacci Piccolomini d’Aragona Brunello di Montalcino 2015 (98 stig) – litli bróðirinn Rosso di Montalcino fæst í vínbúðunum.
22. Heitz Martha’s Vineyard Cabernet Sauvignon 2014 (100 stig) – fæst í vínbúðunum, en annars árgangur.
49. Banfi Excelsus 2016 (96 stig) – Banfi vínin hafa lengi verið fáanleg hérlendis. Þetta má kannski sérpanta.
65. Chateau Kirwan 2017 (95 stig) – 2015 árgangurinn fæst í vínbúðunum og ætti ekki að svíkja neinn.
83. Allegrini La Poja 2013 (94 stig) – Fæst í vínbúðunum!
97. Faustino I Gran Reserva 2009 (93 stig) – 2010 árgangurinn fæst í vínbúðunum.

Þeir sem vilja skoða listana í heild sinni geta séð þá hér – Bestu kaupin og bestu geymslukaupin.

Vinir á Facebook