Domaine des Ouled Thaleb Aït Souala 2019

Það er ekki á hverjum degi sem ég smakka vín frá Afríku, enda úrvalið í vínbúðunum afar takmarkað hvað þessi vín varðar. Á þessari stundu er hægt að nálgast eitt vín frá norður-Afríku í vínbúðunum, en það þarf reyndar að sérpanta. Víngerð í norður-Afríku á sér þó langa sögu – mun lengri en víngerð flestra evrópulanda.

Talið er að víngerð hafi borist til landa norður-Afríku með Föníkumönnum, um það bil 2.500 árum fyrir Krist. Föníkumenn voru sæfarar sem bjuggu þar sem nú er Líbanon. Þeir byggðu upp mikið sjó- og verslunarveldi og námu víða land á norðurströnd Afríku. Auðvitað fluttu þeir menningu sína með sér þangað sem þeir fluttu, þar á meðal víngerð. Á nýlendutímanum réðu Frakkar yfir Alsír og Marokkó og byggðu þar upp mikla vínrækt. Víngerð í Alsír stóð nokkuð framarlega og alsírsk vín voru flutt inn til Frakklands til að styrkja vín frá Languedoc-Roussillon. Þeirri iðju lauk þó þegar Alsír öðlaðist sjálfstæði árið 1962.

Marokkósk víngerð stóð í blóma þegar landið öðlaðist sjálfstæði árið 1956. Þá var vínviður ræktaður á um 55 þúsund hektörum. Mikið af vínunum voru flutt út til Evrópu, einkum Frakklands, en árið 1967 takmarkaði Evrópusambandið þennan innflutning og vínframleiðsla í Marokkó hrundi á næstu árum. Stór hluti vínekranna var þá nýttur undir annan landbúnað og á næstu árum tók ríkið yfir stærstan hluta vínræktunar. Ríkið greiddi fast verð fyrir allar þrúgur, óháð gæðum, og það borgaði sig því varla fyrir vínbændur að leggja neina áherslu á gæðin,

Á tíunda áratug síðustu aldar fór vínræktin aðeins að taka við sér aftur, einkum í tengslum við fjárfestingar franskra aðila, sem fluttu líka inn þekkingu í víngerð. Í dag er vínviður ræktaður á rúmlega 50 þúsund hektörum og Marokkó er orðið næst-stærsta víngerðarland í norður-Afríku, á eftir Alsír. Um 75% framleiðslunnar eru rauðvín og rúm 20% eru rósavín, afgangurinn hvítvín. Helstu rauðu þrúgurnar eru franskar þrúgur á borð við Carignan, Cinsaut, Alicante og Grenache. Hlutur Cabernet Sauvignon, Merlot og Syrah hefur aukist hratt síðustu ár og saman eru þessar þrúgur um 15% af rauðum þrúgum. Helstu hvítu þrúgurnar eru Clairette Blance og Muscat, en eitthvað er þó verið að rækta af Chardonnay, Chenin Blanc og Sauvignon Blanc.

Aðstæður til vínræktar í Marokkó eru ákjósanlegar. Ræktunin eru auðvitað mest við vesturströndina sem liggur að Atlantshafinu. Atlantshafið hefur kælandi áhrif og temprar þannig heitt meginlandsloftslagið sem annars væri ráðandi (og væri allt of heitt fyrir vínrækt).

Marokkó er skipt upp í 5 vínræktar svæði og innan þessara svæða eru 14 skilgreind Appellation d’Origine Garantie (AOG) og eitt Appelation d’Origine Contrôlée (AOC).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur auðvitað frá Marokkó, nánar tiltekið frá ZenataAOG sem er í Rabat/Casablanca-vínræktarsvæðinu. Framleiðandinn heitir Domaine des Ouled Thaleb og vínekrur hans eru rétt austan við borgina Casablanca. Vínið er gert úr þrúgunum Tannat, Malbec og Arinarnoa. Að lokinni gerjun var vínið látið hvíla í 24 mánuði – þriðjungur í eikartunnum og tveir þriðju hlutar í steyptum kerjum.

Domaine des Ouled Thaleb Aït Souala 2019 er rúbínrautt á lit, unglegt með miðlungs dýpt. Í nefinu finnur maður rauð ber, kirsuber og ferskar kryddjurtir. Miðlungs tannín, miðlungs sýra, meðalfylling og ágætur ávöxtur. Vínið er þurrt, með rauðum berjum, vanillu og smá leðri í ágætu eftirbragðinu. Vínið fór mjög vel með lambinu og myndi eflaust ganga ágætlega með svínakjöti, pylsum og ostum.

Domaine des Ouled Thaleb Aït Souala 2019
Domaine des Ouled Thaleb Aït Souala 2019 er ágætt rauðvín frá Marokkó sem féll ljómandi vel að lambakjötinu.
4
88 stig

Vinir á Facebook