Provence

Héraðið Provence er staðsett í suðuraustur-Frakklandi, nánar tiltekið fyrir sunnan frönsku Alpana á milli suður-Rhône og Ítalíu. Héraðið var fyrsta nýlenda Rómverja utan Ítalíu og Rómverjar kölluðu það ýmist Provincia Romana (hérað Rómverja) eða Provincia Nostra (héraðið okkar). Nafnið fylgdi svo héraðinu áfram og það hefur síðan þá verið kallað Provence. Stærsta borg héraðsins er hafnarborgin Marseille, sem stofnuð var af Grikkjum um 600 árum fyrir Krist.

Vínsagan

Rómverjar voru duglegir að breiða út víngerð í nýlendum sínum. Hins vegar var víngerð þegar hafin í Provence áður en Rómverjarnir mættu á svæðið. Grikkir höfðu jú komið sér þar fyrir og hafið þar vínrækt á undan Rómverjum. Í gegnum tíðina hafa ýmsar þjóðir ráðið yfir Provence – Grikkir, Rómverjar, Gallar og Katalóníumenn – og skilið eftir margvísleg áhrif á menningu svæðiðins, þar á meðal þrúgur frá sínum heimasvæðum.

Provence er í dag þekktast fyrir rósavín, sem er um helmingur allrar vínframleiðslu í Provence. Rauðvín eru um þriðjungur framleiðslunnar og minna er framleitt af hvítvínum.

Þrúgur

Mourvèdre er mikilvægasta þrúgan í Provence, enda uppstaðan í rósavínum og rauðvínum héraðsins. Þrúgunum Grenache og Cinsault er oft blandað saman við Mourvèdre, sú síðarnefnda einkum í rósavínin. Hlutur Cabernet Sauvignon og Syrah hefur einnig aukist í seinni tíð. Á móti hefur notkun Carignan minnkað í viðleitni víngerðarmanna að bæta gæði framleiðslunnar. Carignan gefur nefnilega yfirleitt nokkuð ríkulega uppskeru en því miður á kostnað gæða. Aðrar þrúgur sem notaðar eru til íblöndunar í rauðvín og rósavín í Provence eru m.a. Braquet, Calitor, Folle og Tibouren.

Mikilvægustu hvítu þrúgurnar í Provence er Rónarþrúgurnar Bourboulenc, Clairette, Grenache blanc, Marsanne og Viognier. Þá eru þrúgurnar Chardonnay, Sauvignon blanc, Semillon, Rolle og Ugni blanc víða notaðar í hvítvín í Provence.

Vínsvæði

Í Provence ríkir Miðjarðarhafsloftslag – mildur vetur og heit sumur með lítilli úrkomu. Sólskinsstundir eru mjög margar (nærri 3000 klst/ári) og hætt við að þrúgurnar geti ofþroskast ef vínbændur gæta sín ekki. Sterkur vindur (Mistral) af fjöllunum í norðri kælir vínekrurnar og kemur í veg fyrir rakatengda sjúkdóma og myglu. Vindurinn getur þó stundum verið það sterkur að hann skemmi vínviðinn.

Vínhéruð í Provence

Í Provence eru níu skilgreind vínræktarhéruð (AOC):

  • Côtes de Provence AOC – stærsta héraðið, og héðan koma um 75% allra vína frá Provence og rósavín eru um 80% framleiðslunnar, rauðvín 15% og hvítvín 5%. Aðalþrúgurnar eru Carignan, Cinsaut, Grenache, Mourvèdre og Tibouren. Hlutur Carignan má ekki fara yfir 40% og minnst 60% blöndunnar verða að vera Grenache, Cinsaut, Mourvèdre og Tibouren. Eins og áður segir hefur hlutur Carignan heldur minnkað í seinni tíð og Cabernet Sauvignon og Syrah hefur að sama skapi aukist.
  • Coteaux d’Aix-en-Provence AOC – næst stærsta héraðið í Provence. Um 60% framleiðslunnar eru rauðvín, rósavín 35% og hvítvín 5%. Helstu þrúgunar eru renache, Cinsaut og Mourvèdre. Sumir framleiðendur búa til nouveau-vín sem heimilt er að selja í byrjun desember. Ólíkt nouveau-rauðvínum frá Beaujolais þá er ekki skylda að það komi fram á flöskumiðanum að um sé að ræða vín sem eru nouveau eða primeur.
  • Coteaux Varois en Provence AOC – lítið hérað í miðju Provence. Sainte-Baume fjöllin tempra mjög Miðjarðarhafsloftslagið og uppskeran hér er sums staðar ekki fyrr en í nóvember og þar hafa sumir vínbændur verið að gera tilraunir með ræktun Pinot noir. um 60% framleiðslunnar eru rósavín og þriðjungurinn eru rauðvín. Aðalþrúgurnar eru Grenache, Cabernet Sauvignon, Cinsaut, Mourvèdre, Syrah og Carignan.
  • Les Baux-de-Provence AOC – lítið hérað innan Coteaux d’Aix-en-Provence, nær yfir vínekrur umhverfis þorpið Les Baux-de-Provence sem þykir eitt fallegasta þorpið í Frakklandi. Vínin héðan eru flest rauð (80%) úr Grenache, Mourvèdre og Syrah.
  • Coteaux de Pierrevert AOC – lítið hérað umhverfis þorpið Pierrevert. Hér eru gerð rauðvín, hvítvín og rósavín úr þrúgunum Grenache, Syrah, Cinsaut, Clairette og Rolle.
  • Bandol AOC – líklega þekktasta héraðið í Provence. Mourvèdre er mikilvægasta þrúgan og þarf að vera minnst 50% blöndunnar í bæði rauðvínum og rósavínum (í flestum vínum er hlutafallið vel yfir 50%), afgangurinn eru Grenache og Cinsaut, en Syrah og Carignan mega vera allt að 15%. Um 70% vína frá Bandol eru rauðvín, afgangurinn að mestu rósavín. Rauðvín frá Bandol eru einu frönsku rauðvínín þar sem Mourvèdre er ráðandi þrúga. Rauðvínin þurfa yfirleitt að fá þroskast í 10 ár hið minnsta áður en þau fara að njóta sín að fullu.
  • Cassis AOC – eina héraðið í Provence þar sem hvítvín eru stærsti hluti vínframleiðslunnar (um 75%). Þrúgurnar Clairette, Marsanne, Ugni blanc og Sauvignon blanc eru aðalþrúgurnar í Cassis. Stærstu hluti framleiðslunnar fer á heimamarkað og lítið er flutt út fyrir héraðið.
  • Bellet AOC – umhverfis borgina Nice. Hér eru gerð rauðvín, hvítvín og rósavín úr þrúgunum Chardonnay, Clairette, Mayorquin, Muscat Blanc à Petits Grains, Pignerol, Braquet og Roussanne. Aðalþrúgan er þó ítalska þrúgan Vermentino (sem í Frakklandi kallast Rolle).
  • Palette AOC – minnsta héraðið í Provence og flestar vínekrurnar eru í eigu Chateau Simeone. Vínstíllinn er svipaður og í suður-Rhone, og vínin eru að mestu úr þrúgunum Cinsaut, Grenache, Mourvèdre og Ugni blanc.

Provence er eina héraðið utan Bordeaux þar sem vínhús eru gæðaflokkuð. Gæðaflokkunin var sett á laggirnar árið 1955 og þá voru 23 vínhús skilgreind sem Cru Classé. Fimm þeirra eru ekki lengur til eða hafa hætt víngerð, og í dag eru því 18 vínhús skilgreind sem Cru Classé. Þessi flokkun hefur aldrei verið endurskoðuð, ný vínhús geta því ekki fengið þessa skilgreiningu og þau vínhús sem hafa þennan gæðastimpil geta ekki misst hann.

Staðan í vínbúðunum

Þegar þetta er skrifað fást 7 vín frá Provence í vínbúðnum – allt rósavín, og eitt þeirra fæst einnig sem kassavín.

Vinir á Facebook