Torre de Oña Finca San Martin Rioja Crianza 2017

Undanfarinn áratugur hefur verið spænskum víngerðarmönnum góður. Í raun þarf að fara aftur til ársins 2006 til að finna árgang sem er undir meðallagi og aftur til ársins 2002 til að finna lélegan árgang. Þetta hefur komið skýrt fram í hverju frábæru víninu á eftir öðru frá nánast öllum vínhéruðum Spánar. Nú erum við að byrja að njóta Crianza frá 2017, sem er enn einn topp-árgangurinn frá Rioja.

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Torre de Oña, sem er hluti af Rioja Alta-grúppunni. Sociedad Vinícola de La Rioja Alta var stofnað árið 1890 í Haro í Rioja. Að félaginu stóðu fimm fjölskyldur frá Rioja og Baskalandi. Fyrsta vínið frá La Rioja Alta var Reserva 1890 sem nú er framleitt sem Gran Reserva 890. Í tímans rás hefur fyrirtækið dafnað og bætt við sig vínekrum og eignast önnur vínhús. Vínhús Torre de Oña komst í eigu La Rioja Alta árið 1995.

Vín dagsins

Vín dagsins er Crianza frá Torre de Oña. Hér er á ferðinni 100% Tempranillo sem fékk að liggja í 16 mánuði í tunnum úr annars vegar nýrri amerískri eik (60%) og hins vegar notuðum frönskum eikartunnum (40%).

Torre de Oña Finca San Martin Rioja Crianza 2017 er kirsuberjarautt á lit, með miðlungsdýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður plómur, leður, vanillu, lakkrís og krydd. Í munni eru ágæt tannsín, góð sýra og fínn ávöxtur. Vínið er í góðu jafnvægi og í ágætu eftirbragðinu finnur maður leður, kirsuber og vanillu, ásamt smá tóbaki. 90 stig. Mjög góð kaup (2.799 kr). Fer vel með rauðu kjöti, kryddpylsum, fingrafæði eða bara eitt og sér. Ætti að njóta sín vel í a.m.k. 2-3 ár í viðbót.

Þetta vín kostar aðeins 1.999 kr í Fríhöfninni, þannig að ef þið eigið leið þar um…

Robert Parker gefur þessu víni 91 stig og Wine Spectator gefur því 90 stig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur því 4 stjörnur. Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (1.265 umsagnir þegar þetta er skrifað). Steingrímur í Vinoteki gefur því 5 stjörnur og segir það frábær kaup (sem ég er algjörlega sammála).

Torre de Oña Finca San Martin Rioja Crianza 2017
Mjög góð kaup
Finca San Martin Rioja Crianza 2017 er mjög gott vín á frábæru verði og líklega með betri kaupum í vínbúðunum í dag.
4
90 stig

Vinir á Facebook