Domaine Nico Grand Père Pinot Noir 2019

Þekktasta vínhús Argentínu er án efa Bodega Catena Zapata. Vínhúsið var stofnað árið 1902 af Nicola Catena þegar hann hóf að rækta Malbec í Mendoza-héraði í Argentínu. Víngerðin hefur fylgt fjölskyldunni og nú er það barnabarn Nicola, Nicolás Catena Zapata sem stýrir vínhúsinu. Dætur hans, Laura og Adrianna, hafa einnig getið sér gott orð í vínheiminum. Adrianna stofnaði vínhúsið El Enemigo, en hvítvínið þeirra – El Enemigo Chardonnay – var einmitt valið vín ársins 2023 hér á Vínsíðunni.

Laura Catena er þó líklega eitt þekktasta nafnið í Argentínska víngeiranum í dag. Laura lærði líffræði við Harvard-háskóla og læknisfræði við Stanford-háskóla. Ásamt því að starfa sem barnalæknir við UCSF-háskólasjúkrahúsið í San Francisco þá hefur Laura verið „sendiherra“ Argentínskrar víngerðar og dugleg að kynna Mendoza-héraðið. Laura stofnaði líka sína eigin víngerð – Domaine Nico – ásamt víngerðarmönnunum Roy Urvieta og Alejandro Vigil (sem rekur einnig El Enemigo með systur Lauru).

Ólíkt Bodega Catena Zapata og El Enemigo þá gerir Domaine Nico einungis vín úr Pinot Noir. Sagan nær í raun aftur til ársins 1993 þegar Catena fór að rækta Pinot Noir á vínekrum í Tupungato. Þau þreifuðu sig áfram með ýmis yrki af Pinot Noir og árið 2008 má segja að Domaine Nico hafi litið dagsins ljós þegar aukin áhersla var lögð á þessa ræktun og mismunandi aðferðir við víngerðina. Fyrsti árgangurinn kom svo árið 2016 og Domaine Nico gerir í dag 5 vín, öll úr Pinot Noir.

Vín dagins

Vín dagsins kemur af vínvið sem var gróðursettur árið 1993 í Tupungato. Vínekrurnar eru í 1100 metra hæð yfir sjávarmáli (efstu vínekrur Domaine Nico eru í 1500 metra hæð). Vínið var gerjað í steyptum kerjum og stáltönkum, þar sem tæplega helmingur vínklasanna voru heilir þegar gerjunin hófst (afgangurinn var kraminn fyrir gerjun). Þegar klasarnir gerjast heilir hefst gerjunin inni í þrúgunum og það hefur áhrif á bragð vínsins. Að lokinni gerjun var vínið sett á tunnur úr franskri eik (helmingurinn af tunnunum hafði verið notaður nokkrum sinnum áður og gaf því mjög lítil eikaráhrif). Vínið var alls 18 mánuði á eikartunnum og heildarframleiðslan var 9.330 flöskur.

Domaine Nico Grand Père Pinot Noir 2019 er miðlungsdjúpan rúbínrauðan lit með örlítið fjólubláan blæ. Í nefinu eru rauð kirsuber, jarðarber, sveppir, trönuber, svartur pipar, blóðberg, brómber og ristað brauð. Vínð er þurrt, með góða sýru, tæplega miðlungs tannín og gott jafnvægi. Eftirbragðið er mjúkt, heldur sér lengi, og þar má finna kirsuber, jarðarber, sveppi, blóðberg, svartan pipar og milda eik. 94 stig. Frábær kaup (4.390 kr). Fer vel með nautakjöti, villibráð, lambakjöti, kálfakjöti og jafnvel fuglakjöti. Vínið fæst aðeins á finvin.is

Robert Parker gefur þessu víni 93 stig og Tim Atkin gefur því 94 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (272 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur víninu 90 stig.

Domaine Nico Grand Père Pinot Noir 2019
Frábær kaup!
Domaine Nico Grand Père Pinot Noir 2019 fer vel með nautakjöti, villibráð, lambakjöti, kálfakjöti og jafnvel fuglakjöti. Frábær kaup!
5
94 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook