Baron de Ley Rioja Gran Reserva 2015

Vínhús Baron de Ley hefur verið vinsælt meðal íslenskra vínunnenda undanfarin ár. Reservan þeirra hefur verið mest selda spænska rauðvínið og Gran Reservan ein af mest seldu Gran Reservunum undanfarinn áratug. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart, því gæðin hafa verið nokkuð stöðug undanfarin ár, a.m.k. ef marka má álitsgjafa og vínskríbenta.

Þó svo að Baron de Ley sé tiltölulega ungt fyrirtæki (stofnað 1985) þá er sagan eiginlega mun lengri. Árið 1548 byggði greifinn af Eguía kastala á Finca de Imas-landareign sinni við ána Ebro í Rioja. Tuttugu árum síðar hafði greifinn makaskipti á landareignum við Benedictine-regluna sem við það eignaðist Finca de Imas. Munkarnir voru þá þegar þekktir fyrir víngerð og þeir tóku strax til við vínrækt á landareigninni. Árið 1839 gerða Ísabella Spánardrottning jörðina upptæka eftir langar deilur milli kirkju og ríkis, og gaf hana hershöfðingjanum Martín Zurbano í þakklætisskyni fyrir veitta þjónustu. Zurbano varð ekki langlífur vínbóndi (hann var tekinn af lífi 1845). Árið 1880 komst Finca de Imas í eigu fjölskyldu nokkurrar í Rioja, sem átti hana í rúma öld. Vínhúsið komst svo árið 1985 í eigu núverandi eigenda, sem í dag kalla sig Grupo Baron de Ley.

Grupo Baron de Ley á einnig vínhúsin El Coto de Rioja, Finca Museum í Cigales-héraði og Bodegas Máximo í Rioja. Alls rækta þessi vínhús vínvið á rúmlega 600 hektörum lands. Ársframleiðslan hjá Vínhúsi Baron de Ley er alls um 3,5 milljón flöskur.

Vín dagsins

Vín dagsins er Gran Reserva frá vínhúsi Baron de Ley. Reglur Rioja-héraðs kveða á um að Gran Reserva-vín þurfi að vera minnst 2 ár á tunnum og 3 ár á flöskum áður en heimilt er hefja sölu. Þetta vín var 2 ár á tunnum úr franskri og amerískri eik og hefur fengið sín 3 ár á flöskum. Vínið er að stærstum hluta gert úr Tempranillo-þrúgunni, en það inniheldur einnig um 15% af Graciano. Árlega eru gerðar um 200.000 flöskur af þessu víni.

Baron de Ley Rioja Gran Reserva 2015 hefur djúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu má finna vanillu, leður, eik, svört kirsuber, plómur, engifer, svartan pipar og kakó. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð vel, og þar má greina plómur, kirsuber, tóbak, ristaða eik, pipa, vanillu og kakó. 90 stig. Ágæt kaup (4.199 kr. – athugið að nú er 2016-árgangurinn í vínbúðunum og hann kostar 4.398 kr.). Fer vel með grilluðu lambakjöti, nauti, villibráð, þéttum ostum og spænskri skinku.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (3.237 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Enthusiast gefur því 92 stig, James Suckling gefur því 92 stig.

Baron de Ley Rioja Gran Reserva 2015
Ágæt kaup
Baron de Ley Rioja Gran Reserva 2015 fer vel með grilluðu lambakjöti, nauti, villibráð, þéttum ostum og spænskri skinku.
4
90 stig

Vinir á Facebook