Château Lagrange Saint-Julien Grand Cru Classé 2016

Fyrir heimssýninguna í París árið 1855 fyrirskipaði Napóleon III að vínhúsum Bordeaux skyldi raðað upp í gæðaflokka, svo að hægt væri að sýna bestu vín Frakklands á heimssýningunni. Helstu vínkaupmenn Frakklands voru fengnir til verksins. Þeir röðuðu vínhúsum upp í gæðaflokka, þar sem orðspor og verð vínanna réði för, en verðið var á þeim tíma nokkuð góður mælikvarði á gæðin.

Vínunum var skipt upp í fimm gæðaflokka eða yrki (cru). Rauðvínin á listanum komu öll frá Médoc-svæðinu, að einu undanskildu – Château Haut-Brion frá Graves. Hvað varðar hvítvín var aðeins horft til sætvína frá Sauternes og Barsac, og þeim skipt í 3 yrki.

Frá því að upprunalegi listinn var birtur hafa aðeins verið gerðar tvær meiri háttar breytingar á honum. Strax árið eftir (1856) var Cantemerle bætt á listann. Árið 1973 var Château Mouton-Rothschild fært upp um flokk – úr öðru upp í fyrsta yrki. Önnur „minni háttar“ breyting sem hefur átt sér stað er að nú heita flest vínhúsin Château, en það voru aðeins 5 Château á upprunalega listanum.

Þessi flokkun hefur hlotið margvíslega gagnrýni allt frá því hún kom út. Sumir gagnrýnendur hafa birt sína eigin lista, en þessi flokkun hefur þó staðist tímans tönn og verður varla breytt héðan af. Mörg vínhús, sem ekki komust á listann, er nú flokkuð á lista sem nefnist Cru Bourgeois. Sá listi kom fyrst út árið 1932 og hefur verið endurskoðaður nokkrum sinnum eftir að hann var fyrst birtur. Flokkunin var bönnuð árið 2007 en var tekin aftur upp árið 2010 (með nokkuð breyttu sniði) vegna mikillar óánægju með bannið. Þá var aðeins eitt þrep á listanum og það er tiltekið vín sem kemst á listann, ekki vínhúsið sem slíkt. Árið 2020 var listanum aftur breytt og tekin upp þrjú þrep. Flokkunin gildir í 5 ár, frá og með 2018-árgangnum. 

Sum vínhús hafa svo kosið að halda sig alfarið fyrir utan þessa flokkun og eru því ekki á þessum listum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Château Lagrange í Saint-Julien í Médoc. Château Lagrange var með á upphaflega listanum frá 1855 (og er þar enn), þar sem það flokkast sem þriðja yrki. Château Lagrange á stærstu vínekru allra vínhúsanna á 1855-listanum, 110 hektara svæði, þar sem vaxa Cabernet Sauvignon (65%), Merlot (28%) og Petit Verdot (7%), sem endurspeglar svo hlutföllin í víni hússins, sem geta þó breyst aðeins milli ára. Château Lagrange á einnig aðra minni vínekru þar sem vaxa hvítar þrúgur – Sauvignon Blanc (53%), Sémillon (36%) og Muscadelle (11%). Vínhúsið komst í eigu japanska drykkjarvörurisans Suntory árið 1983 (Suntory á m.a. Ribena-ávaxtasafana, Courvoisier koníakið og vískíhúsin Jim Beam, Maker’s Mark og Laphroaig, svo nokkur dæmi séu nefnd). Vínhúsið hafði verið í nokkurri lægð í allmörg ár á undan, en við kaupin kom mikið fjármagn inn í reksturinn. Vínhúsið hefur nú aftur náð fyrri gæðum og má segja að það eigi nú aftur vel heima á 1855-listanum.

Gætið ykkur þó á því að það eru þrjú vínhús í Bordeaux sem heita Château Lagrange! Hin tvö eru í Pomerol og Graves og þó þau séu ágæt þá eru þau ekki í sama gæðaflokki og vínhúsið í Saint-Julien.

Château Lagrange Saint-Julien Grand Cru Classé 2016 er, eins og kemur fram hér að ofan, gert úr Cabernet Sauvignon (70%), Merlot (24%) og Petit Verdot (6%) . Að lokinni gerjun er vínið geymt í 2 ár á tunnum úr franskri eik (60% af tunnunum eru nýjar, hinar hafa verið notaðar áður). Vínið hefur fallegan kirsuberjarauðan lit og góða dýpt. Í nefinu er þéttur og góður ilmur af eik, leðri, plómum, kirsuberjum,brómberjum, sólberjum, tóbaki, vanillu og skógarbotni. Vínið er þurrt, með rífleg miðlungstannín, miðlungs sýru og góða fyllingu. Eftirbragðið langt og þétt, og þar má greina tóbak, vanillu, leður, sedrusvið, eik og sólber. Frábært vín! 94 stig. Fer vel með góðri nautasteik, villibráð og íslenska lambinu. Líkt og önnur frönsk gæðavín þá tekur vínið aðeins í budduna (12.900 kr). Fæst aðeins hjá usavin.is.

Robert Parker gefur þessu víni 95 stig og Wine Spectator gefur því 94 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (1.333 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Château Lagrange Saint-Julien Grand Cru Classé 2016
Frábært vín!
Château Lagrange Saint-Julien Grand Cru Classé 2016 er frábært vín sem fer vel með góðri nautasteik, villibráð og íslenska lambinu.
5
94 stig

Vinir á Facebook