El Enemigo Chardonnay 2019

Vínhúsið El Enemigo – Óvinurinn – er samstarfsverkefni Adrianna Catena og Alejandro Vigil. Adrianna Catena er dóttir Nicolas Catena Zapata, sem er einn mesti áhrifavaldur Argentínskrar víngerðar. Alejandro Vigil hefur séð um víngerðina hjá vínúsi Catena undanfarin 20 ár. Samstarf þeirra hófst árið 2007 og var þá tilraunaverkefni sem þau kölluðu Aleanna.

Þau vöktu fljótt athygli fyrir vínin sem þau kölluðu „El Enemigo“ en sérstaklega þó fyrir vín úr Cabernet Franc sem kallast Gran Enemigo. Vínin í Gran Enemigo-línunni eru fimm talsins – fjögur einnar-ekru vín sem öll er að mestu úr Cabernet Franc, og svo eitt sem er að mestu úr Malbec. Vínin hafa hlotið fádæma viðtökur gagnrýnenda og sem dæmi má nefna að þau hafa aldrei fengið minna en 94 stig hjá Robert Parker. Gran Enemigo Gualtallary Cabernet Franc 2013 varð fyrsta Cabernet Franc-vínið frá Argentínu til að fá 100 stig hjá Robert Parker. Í dag fram gerir El Enemigo 15 mismunandi vín – 13 rauð og 2 hvít – og það eru enn fleiri í burðarliðnum. El Enemigo gerir 4 rauðvín úr þrúgunni Bonarda, þar af eitt sem er fáanlegt í vínbúðunum.

Gualtallary er svæði í Uco-dalnum í Mendoza, sem er þekktasta vínhérað Argentínu. Vínekrurnar í Gualtallary eru í nærri 1600 metra hæð yfir sjávarmáli. Hér eru mjög hagstæð vaxtarskilyrði fyrir vínvið á borð við Chardonnay, Cabernet Franc, Pinot Noir og Sauvignon Blanc – löng og sólrík sumar, kaldar nætur og lítil úrkoma á vaxtartímanum. Þannig halda þrúgurnar í sýruna alveg fram að fullum þroska, sem er skilyrði fyrir því að þær gefi af sér góð vín. Héðan koma líklega bestu Chardonnay-vínin frá Argentínu. Þekktustu vínekrurnar í Gualtallary eru á efa Adrianna-vínekrurnar, sem eru í eigu Catena-fjölskyldunnar.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur, eins og skilja má af innganginum, frá El Enemigo. Vínið er hreint Chardonnay frá Gualtallary, sem að lokinni gerjun var látið hvíla í 9 mánuði í 500-lítra eikartunnum (þriðjungurinn nýjar tunnur). Alls voru gerðar 16.500 flöskur af þessu víni.

El Enemigo Chardonnay 2019 er fölgult á lit, með rjómakennda angan af eplum, sítrónum, perum, huangi, ananas og steinefnum. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og miðlungs fyllingu. Eftirbragðið er langt, með seiðandi tóna af eplum, steinefnum, ananas, perum og hunangi. 94 stig. Frábær kaup (3.990 kr – fæst aðeins í netversluninni finvin.is). Njótið með skelfiski, sjávarfangi hvers konar, laxi, bleikju eða ljósu fuglakjöti.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (2.971 umsögn þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 93 stig. Wine Spectator og Wine Enthusiast gefa 90 stig hvor um sig. Tim Atkin gefur 93 stig. Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur því 5 stjörnur.

Þetta vín var valdið Vín ársins 2023 á Vínsíðunni.

El Enemigo Chardonnay 2019
Frábær kaup
El Enemigo Chardonnay 2019 er frábært vín sem fer vel með skelfiski, sjávarfangi hvers konar, laxi, bleikju eða ljósu fuglakjöti. VÍN ÁRSINS 2023 Á VÍNSÍÐUNNI!
5
94 stig

Vinir á Facebook