Skemmd vín

Í gærkvöldi opnuðum við rauðvínsflösku með matnum, sem er svo sem ekki í frásögur færandi svona á miðvikudagskvöldi, þar sem við erum bæði í sumarfrí.  Flöskurnar urðu reyndar tvær því sú fyrri reyndist skemmd því vínið var korkað.  Því fannst mér tilvalið að fjalla örlítið um skemmd vín – hvernig veit maður að þau eru skemmd og hvað á maður að gera?

Í grófum dráttum getur maður sagt að vín geta verið skemmd á tvo mismunandi vegu – oxuð eða korkuð.

Oxuð vín

Þegar súrefni kemst að víni í flöskunni hefjast efnahvörf sem valda því að vínið þroskast mjög hratt og súrnar, líkt og þegar vín er skilið eftir í opinni flösku í langan tíma.  Flest vín er hægt að geyma í nokkra daga í kæli eftir að flaskan hefur verið opnuð en eftir það fara þau að súrna (breytast í edik).  Ef súrefni kemst að víninu áður en flaskan hefur verið opnuð hefjast þessi sömu efnahvörf og vínið því orðið súrt áður þegar flaskan er opnuð.  Það er ein af ástæðum þess að maður á að líta á tappann þegar flaska er opnuð, því ef loft kemst að víninu þá kemst vökvi líka út og það sést á tappanum (sjá mynd, sem fengin er af vefsíðunni eyewine101.com). Hins vegar tekur oxunarferlið misjafnlega langan tíma í ólíkum vínum.  Hvítvín hafa engin tannín og oxast mjög hratt, en rauðvín sem hafa mikil tannín geta ráðið við súrefnið í dálítinn tíma en skemmast að lokum.

Ef tappinn úr flöskunni lítur út eins og á myndinni hér að ofan er ástæða til að fyllast grunsemdum.  Sömuleiðis ef tappinn er mjög þurr og molnar þegar hann er dreginn úr flöskuni er líklegt að loft hafi komist í vínið og skemmt það.  Þetta á sérstaklega við um eldri vín sem hafa kannski ekki verið geymd á fullnægjandi hátt (flöskurnar staðið uppréttar í langan tíma). Ef þið finnið lykt og/eða bragð af sveskjum og vínið  er súrt þá er það líklega oxað og full ástæða til að biðja um að fá aðra flösku í staðinn.

Korkuð vín

Vínið sem við opnuðum í gærkvöldi var korkað.  Það þýðir að efnið TCA (2, 4, 6, Trichloroanisole) hefur verið til staðar í tappanum og skemmt vínið.  TCA kemur frá myglusveppum sem hafa verið til staðar í korkinum (eða komist í korkinn) sem tappinn er búinn til úr.  Fyrir allmörgum árum var þetta algengt vandamál og allt að ein af hverjum 15 flöskum var skemmd vegna þessa.  Korkframleiðendur hafa hins vegar bætt framleiðsluaðferðir sínar og þar með minnkað tíðni TCA í korktöppum  niður í 1-2%.  Hins vegar er þetta ekki alltaf korkframleiðendum að kenna, því TCA getur líka komið sér fyrir í framleiðslusal víngerðarinnar (það sækir sérstaklega í gúmmíslöngur og eikartunnur).  Það þarf ákaflega lítið af efninu til að skemma vínið – nokkur nanógrömm duga og við mannfólkið erum mjög næm fyrir þessu efni og lyktina af því.

TCA er ekki hættulegt og okkur verður ekki meint af því að drekka korkuð vín.  Efnið hefur hins vegar áhrif á lyktar-  og bragðskyn okkar – spennandi máltíð á góðum veitingastað verður bragðdauf og óspennandi og þar með getur kvöldið líka orðið misheppnað.  En hvernig greinir maður korkað vín?

Aðaltilgangur þess að lykta af víni og smakka það á veitingastað er að kanna hvort vínið sé skemmt.  Ef vínið er nánast lyktar- og bragðlaust getur það verið skemmt og þið getið óhikað lýst efasemdum um að vínið sé í lagi, beðið vínþjóninn að smakka og jafnvel skilað víninu.  Athugið að maður skilar bara víni sem er skemmt, ekki víni sem manni finnst ekki nógu gott og vill fá eitthvað annað.  Oft er það þó þannig að það leynir sér ekki þegar vín eru korkuð.  Það er sterk myglu- og rakalykt af tappanum og víninu – lykt sem minnir á blautan pappír, dagblað eða jafnvel blautan hund.  Slíku víni skilar maður tafarlaust.  Ef næsta flaska er alveg eins þá er mögulegt að enn fleiri flöskur séu skemmdar og hægt að velta fram möguleikanum á að fá í staðinn annað sambærilegt vín.

Ef þið opnið flösku í heimahúsi og hún reynist skemmd þá er best að stinga tappanum aftur í flöskuna og fara með hana í Vínbúðirnar, þar sem þið getið fengið aðra flösku í staðinn.  Ef þið eruð í vafa um ágæti vínsins og kláruðuð ekki flöskuna þá er allt í lagi að skila henni.  Flestir starfsmenn Vínbúðanna þekkja einkenni skemmdra vína og skipta henni með bros á vör.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um skemmd vín má benda á ágæta samantekt á Wikipedia.

 

Vinir á Facebook