Flottur Malbec

Um daginn fjallaði ég um alveg ljómandi gott Cabernet Sauvignon frá argentíska vínhúsinu Trivento.  Það er þrjú önnur vín í þessari ágætu Golden Reserve-línu frá Trivento – 2 rauð (Syrah og Malbec) og eitt hvítt (Chardonnay).  Í gegnum tíðina hef ég náð að smakkka öll þessi vín en það er alveg orðið tímabært að fara aðra umferð enda nýjir og flottir árgangar komnir í stað þeirra sem ég prófaði á sínum tíma.  Vín úr þessari línu hafa líka verið fastagestir í hópi þeirra vína sem hafa hlotið Gyllta glasið undanfarin ár.  Þá hafa þessi vín nær undantekningalaust verið að fá 90+ stig hjá Wine Spectator og Robert Parker.

Malbec-þrúgan nýtur sín einstaklega vel í Argentínu og þar sem víngerð víðast hvar hefur þróast í tengslum við matarmenningu viðkomandi svæðis þá er nánast gefið að argentínsk Malbec renna ljúflega niður með góðri steik.

Vín dagsins

Vín dagsins er hreint Malbec sem að lokinni gerjun fékk að liggja í 12 mánuði á tunnum úr franskri eik og svo aðra 12 mánuði í flöskunni áðurn en vínið var sett í almenna sölu.  Flest hafa rauðvínin í þessari línu gott af því að fá að þroskast í nokkur ár til viðbótar (3-7 ár) til að þau njóti sín sem best.  Sá árgangur sem nú er til sölu í vínbúðunum er 2016 og hann er rétt að komast inn á sitt blómaskeið.

Trivento Golden Reserve Malbec 2015 er dökkrúbínrautt á lit, unglegt með ágæta dýpt.  Í nefinu finnur maður leður, plómur, súkkulaði, pipar og vanillu.  Í munni eru flott tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Bláber, leður, og krækiber í þéttu og góðu eftirbragði. Fer vel með öllu rauðu kjöti, einkum hef það hefur verið sett á grillið.

Frábær kaup (2.999 kr). 90 stig

Hvað segja hinir?

Robert Parker gefur þessu víni 91 stig.
Wine Spectator gefur víninu 89 stig.
Wine Enthusiast gefur 88 stig.
James Suckling gefur 94 stig.
Steingrímur í Vinotek gefur 4,5 stjörnur.
Þorri Hringsson gefur 4,5 stjörnur.

 

Vinir á Facebook