Ítalskur töffari

Um daginn fjallaði ég um vín frá Antinori, nánar tiltekið litla bróður Tignanello.  Tignanello telst til brautryðjenda í ítalskri víngerð því þegar það vín var fyrst búið til var vikið frá þeim reglum sem giltu um gerð Chianti-vína og notaðar þrúgur sem ekki voru leyfðar skv. DOC-reglum.   Annar brautryðjandi í ítalskri víngerð er maður sem gjarnan hefur verið nefndur herra Toscana, Paolo de Marchi, sem er eigandi vínhúss Isole e Olena.

Faðir Paolo stofnaði vínhúsið þegar hann keypti tvö lítil vínhús, „Isole“ og „Olena“, og sameinaði þau undir nafninu Isole e Olena.  Fjölskyldan hafði áður stundað víngerð í Barolo í Piemonte en flutti sig um set á 6. áratug síðustu aldar.

Vín dagsins

Þegar Paolo de Marchi tók við stjórnartaumunum hjá Isole e Olena langaði hann til að breyta um áherslur í víngerðinni og hóf að búa til hreint Sangiovese-vín, en á þeim tíma var skylda að nota hvítu þrúgurnar Malvasia og Trebbiano í rauðvín frá Toscana.  Útkoman var Cepparello, sem enn í dag er hreint Sangiovese-vín.

Isole e Olena Cepparello 2015 er dökk-kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt, unglegt.  Í nefinu er þéttur ilmur af kirsuberjum, leðri, pipar, sólberjum, vanillu og eik.  Í munni eru stinn tannín, frískleg sýra og flottur ávöxtur. Sólber, leður, pipar, frönsk eik og súkkulaði í löngu og þéttu eftirbragðinu. Fer vel með öllu rauðu kjöti og einnig góðum ostum.  Frábær kaup (6.990 kr).  Njótið á næstu 10-20 árum.

94 stig. Frábært vín.

Hvað segja hinir?

Notendur Vivino gefa 4,3 stjörnur (296 umsagnir).
Wine Spectator gefur 93 stig.
Robert Parker gefur 95 stig.

Vinir á Facebook