Montes Alpha Special Cuvee Cabernet Sauvignon 2014

Fyrir nokkru síðan (desember 2017) prófaði ég tvö vín úr því sem þá var ný lína frá Chileanska vínhúsinu Montes, s.k. Special Cuvée vín.  Montes þarf varla að kynna fyrir íslenskum vínáhugamönnum enda fjölmörg vín frá þeim verið fáanleg í vínbúðunum og um þessar mundir eru 16 mismunandi vín frá þeim fáanleg hérlendis.  Ég held að ég hafi nú prófað 13 af þessum 16 vínum þegar vín dagsins er talið með.

Orðið Cuvée er franskt og má þýða sem ker eða tankur. Yfirleitt vísar þetta til sérstakrar blöndu sem víngerðarmaðurinn hefur tekið fram en það eru engar reglur til um notkun þessa hugtaks í víngerð, ekki einu sinni í Frakklandi þar sem flest er niðurnjörvað í regluverk.

Vín dagsins

Í Special Cuvée-línunni frá Montes er að finna ágætt Cabernet Sauvignon frá Colchagua-dalnum í Chile, en í vínið hefur einnig verið blandað Carmenere (5%) og Syrah (10%).  Hluti vínsins var látinn liggja í rúmt ár í notuðum tunnum úr franskri eik

Montes Alpha Special Cuvée Cabernet Sauvignon 2014 hefur djúpan og fallegan kirsuberjarauðan lit, með unglegri slikju.  Í nefinu eru plómur, leður, vanilla og lyng ráðandi, með smá kryddum og örlitlum pipar.  Í munni eru hrjúf tannín, góð sýra en ekki alveg í jafnvægi. Ágætur ávöxtur. Rauð ber, kakó og hrat í eftirbragðinu. Vantar aðeins upp á fyllinguna. 87  stig.  Hentar vel með pottréttum, pylsum, ostum og góðum steikum.

Ágæt kaup (3.299 kr).

Vinir á Facebook